Hlaupa til styrktar sjálfsvígsforvörnum
Vinirnir Ásta María Jónasdóttir og Jóhann Ingi Kjærnested munu hlaupa tíu kílómetra til styrktar Pieta Ísland í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fram fer 19. ágúst næstkomandi.
Pieta Ísland er ætlað fólki í sjálfsvígshugleiðingum og fólki með sjálfsskaðahegðun og markmið þess er að opna umræðuna um sjálfsvíg. Pieta Ísland mun í framtíðinni bjóða upp á ókeypis aðgengilega þjónustu og munu einstaklingar sem þurfa á aðstoð að halda eiga kost á að fá hana innan 24 stunda.
„Við ákváðum fyrst og fremst að styrkja Pieta vegna þess að árið 2014 féll afi minn fyrir eigin hendi. Slík áföll hafa gríðarleg áhrif á bæði aðstandendur og samfélagið í heild sinni þar sem það fylgir því alltaf ónota tilfinning að vita ekki hver sé næstur,“ segir Ásta María í samtali við Víkurfréttir.
Bæði Ásta og Jóhann glíma við andlega sjúkdóma, bæði þunglyndi og kvíða. „Þessum sjúkdómum fylgja oft sjálfsvígshugsanir og þess vegna ákváðum við að hlaupa fyrir Pieta, sem er tiltölulega nýtt úrræði í sjálfsvígsforvörnum,“ segir hún.
Hægt er að heita Ástu Maríu og Jóhann Inga hér.