Hlaupa með „Loga vonarinnar“ í Belgíu
Tveir lögreglumenn á Suðurnesjum munu halda til Belgíu í vikunni til að taka þátt í kyndilhlaupi lögreglumanna á Evrópuleikum Special Olympics 2014, sem þar fara fram. Ísland fékk boð um að senda lögreglumenn í hóp lögreglumanna frá 15 öðrum Evrópulöndum sem munu hlaupa með kyndilinn, „Loga vonarinnar“ dagana 9.-13. september.
Hafa þeir Guðmundur Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður og Gunnar Schram yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum þegið það boð. Guðmundur er jafnframt formaður Nes, íþróttafélags fatlaðra á Suðurnesjum.
Þáttakendur á leikum Special Olympics eru einstaklingar með þroskahömlun, engin lágmörk þarf á leikana og allir keppa við sína jafningja. Hugmyndafræðin byggir á gildi umburðarlyndis og jafnræðis. Einnig að skapa einstaklingum með þroskahömlun tækifæri til þáttöku í íþróttastarfi þar sem virðing, vinátta og jafnræði ríkja og allir eru sigurvegarar. Markmiðið er ekki að sigra andstæðinginn heldur að taka þátt og gera sitt besta.
Lögreglumenn tóku í fyrsta skipti þátt í kyndilhlaupi við setningu Íslandsleika Special Olympics í nóvember í fyrra, sem fóru fram á Suðurnesjum í nóvember í fyrra. Lögreglumenn frá Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu tóku þátt og var lagt upp frá lögreglustöðinni við Hringbraut í Keflavík og hlaupið með kyndilinn inn á leikvöllinn þar sem eldur leikanna var tendraður með kyndlinum.