"Hlakka til að skoða alla diskana mína í nýja tækinu"
-Hjónin Brimhildur Jónsdóttir og Anton Hafþór Pálsson úr „Nýju“ Njarðvík unnu risastóra veggsjónvarpið frá Rönning í Jólalukku Víkurfrétta.
Hjónin Brimhildur Jónsdóttir og Anton Hafþór Pálsson unnu stærsta vinninginn í Jólalukku Víkurfrétta og verslana í Reykjanesbæ en það var fimmtíu tommu veggsjónvarp frá versluninni Rönning við Hafnargötu í Keflavík. „Nú get ég legið yfir tækinu og skoðað tvöhundruð og fimmtíu mynddiskana mína,“ sagði Brimhildur þegar hún og Anton fengu þetta risavaxna og glæsilega sjónvarpstæki afhent á Þorláksmessu.
Brimhildur segir að vinningsmiðinn hafi líklega komið úr Kaskó því hún var með nokkra miða þaðan en einnig frá Fjólu gullsmið. „Þetta var svolítið skemmtilegt. Bóndinn var sofnaður og ég ákvað að skafa nokkra lukkumiða sem ég var með seint í fyrrakvöld. Fyrst fékk ég hangikjöt í Kaskó á einn miðann og var mjög glöð með það en svo kom þessi stærsti vinningur ársins á næsta miða. Ég hreinlega hoppaði af gleði“.
Sjónvarpið er LG flatskjár með upplausnina 1366x768, HD ready, 2 HDMI tengi, með hörðum diski og mörgu fleira og kostar 240 þús. kr. Þau hjón skoðuðu mynd í tækinu í búðinni og voru mjög glöð enda sérlega góð myndgæði og svo skemmir ekki að tækið er mjög fallegt líka.
Þau hjón fluttu í Innri-Njarðvík fyrir tæpum tveimur árum og voru með þeim fyrstu sem byggðu í Nýju Njarðvík eins og Brimhildur segist kalla hana. Anton sagði að þau hafi aðeins verið um hálft ár að komast inn í nýtt einbýlishús en hann var líka í vinnu við það allan tímann enda hætti hann í sínu gamla starfi um þetta leyti. Húsið þeirra er við Erlutjörn og segjast þau una hag sínum vel í Nýju Njarðvík.
„Við áttum lítinn flatskjá en nýja tækið smellpassar í húsið okkar. Þetta var æðislegt,“ sagði Brimhildur og brosti breitt þegar hún skoðaði nýja LG tækið sitt í Rönning.
Rönning opnaði verslun í Reykjanesbæ snemma árs 2006 og hefur vaxið fiskur um hrygg síðan þá. Keflvíkingurinn Björgvin Björgvinsson, rafvirki og Guðbjörn Ólafsson sem kemur úr Hafnarfirðinum eru rekstrar- og verslunarstjórar í búðinni. Guðbjörn segir að það sé búið að vera brjálað að gera í desember og verslunin hafi fengið frábærar mótttökur frá því hún opnaði. „Það kom fólk hér síðast í gær og verslaði stór eldhústæki tveim dögum fyrir jól sem fóru beint í nýtt hús. Það er verið að afhenda nokkrar íbúðir núna rétt fyrir jól og við vitum um fólk sem bíður liggur við fyrir utan með dótið sitt. Þetta er því mikið fjör. Þorláksmessa er alltaf skemmtileg og það hafa margir gamlir viðskiptavinir RÓ komið hér í dag og verslað, m.a. höfum við selt hundruð ljósapera og það er því óhætt að segja að við lifum á hefðinni sem var hér þegar þetta var RÓ. Það er mjög skemmtilegt og það var líka frábært að afhenda hjónunum þennan flotta vinning úr Jólalukkunni,“ sagði Guðbjörn
Eins og flestir Suðurnesjamenn vita eru um 5000 vinningar í Jólalukku Víkurfrétta. Fólk sem er með miða með engum vinningi á er hvatt til að skila þeim í sérmerktan kassa í Kaskó en dregið verður í fyrramálið um tuttugu vinninga og einn flugmiða til Evrópu með Icelandair.