Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hjúkrunarfólkið á HSS á leiðinni í leikhús
Föstudagur 13. september 2013 kl. 16:42

Hjúkrunarfólkið á HSS á leiðinni í leikhús

Hilmar Bragi Bárðarson, fréttastjóri Víkurfrétta, kom færandi hendi á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja nú áðan. Þar afhenti hann Bryndísi Sævarsdóttur, deildarstjóra D-deildar HSS, 60 gjafabréf í Þjóðleikhúsið.

Leikhúsmiðarnir eru þakklætisvottur frá Hilmari Braga fyrir veitta þjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fyrr í sumar. Þá lá hann á sjúkrahúsinu í nokkra sólarhringa í kjölfar alvarlegra veikinda og var síðan í lyfjagjöf í tvær vikur og skurðsárameðferð þar til fyrir mánuði síðan.

Frjáls framlög Fésbókarvina í miðakaupin
Leikhúsmiðarnir eru keyptir fyrir frjáls framlög Fésbókarvina Hilmars Braga í svokallaðan Gleðisjóð sem er ætlað að gera heilbrigðisstarfsfólki glaðan dag. Þetta fólk vinnur oft langan vinnudag og er undir miklu álagi. Þetta upplifði Hilmar Bragi þegar hann var á sjúkrahúsi í sumar, fyrst á deild A7 á Landsspítalanum í Fossvogi og svo í framhaldinu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Samtals afhenti Hilmar Bragi 110 leikhúsmiða til starfsfólksins á A7 í Fossvogi og á D-deild og hjúkrunarmóttöku HSS. Þrátt fyrir allt álagið og langa vinnudaga þá mætti Hilmari Braga bara gleði og bros sem gerðu þá upplifun að liggja á sjúkrahúsi bara ánægjulega.

„Það þarf fólk eins og þig“
Bryndís Sævarsdóttir, deildarstjóri D-deildar, var afar þakklát fyrir rausnarlega gjöf og þann hug sem henni fylgdi. Það væri afar ánægjulegt að starfsfólkið gæti lyft sér upp eina kvöldstund. „Það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig,“ sagði Bryndís þegar gjöfin var afhent. Það væri mikilvægt fyrir starfsfólk í heilbrigðisþjónustu að sjá árangur af starfi sínu og sjá fólk ná heilsu á ný og sá þakklætisvottur sem þeim væri sýndur með leikhúsmiðunum snerti við fólki.

Hilmar bætti því við að það sama gilti um vini hans á Fésbókinni sem lögðu til frjáls framlög í Gleðisjóðinn. Það þarf svoleiðis vini til að láta stór verkefni ganga upp og margt smátt gerir eitt stórt.

Markvisst unnið að því að bæta eigin heilsu
Í gær voru liðnir þrír mánuðir frá því Hilmar Bragi lagðist inn á sjúkrahús fárveikur vegna sýkingar ofan í svæsna sykursýki. 12. júní var hann lagður inn á smit- og lyflækningadeild LSH í Fossvogi. Þann dag segist Hilmar hafa öðlast nýtt líf. Viðhorf til eigin heilsu breyttist og með markvissum hætti hefur hann unnið að því að bæta eigin heilsu með því að taka út alla sykurneyslu og þess í stað bæta inn hreyfingu. Með því að labba reglulega og borða hollari mat hefur Hilmar Bragi létt sig um 27 kíló á þremur mánuðum. Tímamótanna minntist Hilmar í gær með því að labba frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík og á Landsspítalann í Fossvogi. Samtals er leiðin 48 kílómetrar og tók gangan 8 klukkustundir og 30 mínútur.

Gleðisjóðurinn fær fleiri verkefni
Gleðisjóðurinn er ennþá starfandi og hefur fengið frekari verkefni til að vinna í. Næsta verkefni sjóðsins er að kaupa spjaldtölvu sem hugsuð er sem afþreying fyrir börn sem komið er með á slysa- og bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þörf er á afþreyingu fyrir unga gesti slysamóttökunnar til að stytta þeim stundir.

Þeir sem vilja leggja Gleðisjóðnum lið geta lagt frjálst framlag inn á reikning 542-14-403394 kt. 250570-3929.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024