Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hjólreiðamenn komnir á Selfoss
Sunnudagur 4. júní 2006 kl. 11:46

Hjólreiðamenn komnir á Selfoss

Fjórir hjólreiðamenn lögðu í nótt upp frá Reykjanesbæ í hringferð um Ísland á reiðhjólum. Fjórmenningarnir ætla 1550 kílómetra leið á 10 dögum með það markmið að safna fé fyrir langveik börn á Íslandi. Fjármunirnir sem safnast verða afhentir Umhyggju þegar hjólreiðakapparnir koma til baka til Reykjanesbæjar. Umhyggja er félag sem vinnur að bættum hag sjúkra barna og fjölskyldna þeirra. Í félaginu starfa foreldrar langveikra barna og fagfólk innan heilbrigðiskerfisins. Einnig eru félög og hópar foreldra langveikra barna í félaginu.

Þeir fjórir sem leggja þá þrekraun að baki að hjóla hringinn eru þeir Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, Jóhannes A. Kristbjörnsson, rannsóknarlögreglumaður í Keflavík, Júlíus Júlíusson, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og Gestur Pálmason, lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli.

Meðfylgjandi mynd var tekin í nótt af lögreglunni í Keflavík þegar fjórmenningarnir voru að ljúka við Reykjanesbrautina. Við höldum áfram að fylgjast með ferð þeirra en þeir eru í þessum skrifuðum orðum staddir á Selfossi.

Mynd: Sigurður Bergmann
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024