Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hjartastuðtæki um borð í öll skip Þorbjarnar Fiskaness
Miðvikudagur 1. desember 2004 kl. 10:26

Hjartastuðtæki um borð í öll skip Þorbjarnar Fiskaness

Keypt hafa verið hjartastuðtæki í öll skip Þorbjarnar Fiskaness í Grindavík. Jafnframt verða haldin námskeið fyrir áhafnir skipanna þar sem meðferð tækisins verður kennd ásamt grundvallaratriðum í endurlífgun af völdum hjartaáfalls. Hjartastuðtækin eru af gerðinni AccessAED og eru afar handhæg og fyrirferðarlítil.
Þegar hjartastopp á sér stað er ástæðan oftast af völdum takttruflana í hjartanu. Algengasta orsökin er slegaflökt í hjartanu sem dælir þá engu blóði. Þegar hjartastopp verður missir sjúklingurinn meðvitund, hættir að anda og púls mælist ekki. Þegar þannig er komið er sjúklingurinn við dauðans dyr og því má engan tíma missa ef takast á að bjarga lífi hans. Í slíkum tilvikum eru hjartastuðtækin oft það eina sem orðið getur til bjargar.
Rafstuð er eina þekkta meðferðin við slegaflökti, en þegar rafstraumur er sendur í gegnum hjartað getur það orðið til þess að hjartað nái réttum takti, enda sé brugðist við innan fárra mínútna. Við hverja mínútu sem líður frá því hjartastopp verður minnka líkur á endurlífgun sjúklingsins um 7-10%. Það er því ljóst að rétt og skjót viðbrögð og góður tækjabúnaður getur skipt sköpum ef takast á að bjarga lífi viðkomandi.  
Embætti landlæknis hefur, ásamt heilbrigðisyfirvöldum víða um heim, mælt eindregið með því að að hjartastuðtæki verði sem víðast aðgengileg, til þess að auka lífslíkur þeirra sem verða fyrir hjartastoppi. Talið er að allt að 300 manns deyji árlega hér á landi af völdum hjartastopps, en með aukinni útbreiðslu hjartastuðtækja og þekkingu á notkun þeirra er talið að lækka megi þessa tölu umtalsvert.  
Svo sem fyrr segir eru hjartastuðtækin lítil og handhæg. Með þeim fylgja leiðbeinginar á íslensku, bæði í tali og texta. Þau eru auðveld í notkun og rekstri og þurfa ekkert viðhald. Tækin koma í sterkum umbúðum sem þola neyðarmeðhöndlun, en frá þessu er greint á vefsíðu fyrirtækisins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024