Hjartaskipti Helga Einars í máli og myndum
„Mér líður bara alveg konunglega. Það er vel hugsað um mig hér og ég var reyndar að koma úr sturtu,“ sagði Helgi Einar Harðarson í samtali við Víkurfréttir í fyrradag, en Helgi liggur á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg eftir að hafa gengist undir hjartaskiptaaðgerð í annað sinn.
Hjartaskiptaaðgerðin var gerð á þriðjudaginn í síðustu viku, en einnig gekkst Helgi Einar undir nýrnaaðgerð og tóku aðgerðirnar um 12 klukkustundir samfleytt. „Ég vaknaði rúmum þremur tímum eftir aðgerðina og spjallaði aðeins við mömmu. Læknarnir hér eru alveg í skýjunum yfir því hvað þetta gengur allt vel,“ segir Helgi, en hann var aðeins í einn sólarhring á gjörgæsludeild eftir aðgerðina og fór þaðan á almenna deild.
Aðgerðirnar sem Helgi gekkst undir eru mjög umfangsmiklar og komu á milli 20 og 30 manns að þeim báðum. „Mér skildist á þeim að þetta væri fjórða aðgerðin sem gerð hefði verið á sjúkrahúsinu, sem er svona stór í sniðum,“ segir Helgi en hann hóf endurhæfingu í byrjun vikunnar og vonast til að vera á sjúkrahúsinu áfram. „Ég veit ekki alveg hvað ég verð hér lengi, en ég vona að það verði sem lengst. Ég verð örugglega settur á aðra deild fljótlega ef hlutirnir koma til með að ganga svona vel.“
Helgi er á sterkum verkjalyfjum eftir aðgerðina, en hann segist ekki finna mikið fyrir hjartaskurðinum sjálfum. „Ég er með ofsalegan verk í kringum nýrnaskurðinn, en það eru 19 hefti sem halda skurðinum saman sem nær frá nafla og aftur á bak. Við minnstu hreyfingu fæ ég verk í skurðinn, en þetta batnar samt með hverjum deginum sem líður.“
Hjartað sem Helgi fékk grætt í sig er sterkt og hann er ánægður með slögin sem hann finnur í nýja hjartanu. „Hjartað slær vel eða um 80 slög á mínútu eins og í venjulegum manni. Nýrun starfa líka mjög vel og nýrnalæknarnir eru mjög ánægðir,“ segir Helgi og hann trúir því varla hvað hlutirnir hafa gengið vel. „Maður trúir þessu ekki því þetta er allt svo óraunhæft. Maður var búinn að átta sig á því að það tæki nokkrar vikur að jafna sig, standa upp og hreyfa sig. Ég gerði mér aldrei vonir um að þetta myndi ganga svona vel. Ég er laus við allar slöngur og farinn að fara á klósettið sjálfur og það er alltaf stórt skref,“ segir Helgi og hlær í símann.
En hvað hugsaði Helgi um þegar hann vaknaði eftir þessa stóru aðgerð? „Ég var allur dofinn. Mér fannst það ótrúlegt að þetta væri búið þegar ég vaknaði og að það væri kominn skurður á mann. Ég var nú hálf sljór svona til að byrja með enda var ég þá á morfíni. Þetta er bara alveg ótrúlegt og læknarnir hér eru alveg hissa,“ segir Helgi en þremur tímum eftir aðgerðina rabbaði hann við móður sína, Sigurbjörgu Ásgeirsdóttur sem ásamt systur hennar er stödd í Gautaborg hjá Helga Einari.
Næstu vikur skipta miklu máli fyrir Helga og nýja hjartað því alltaf er hætta á því að líkaminn hafni nýja hjartanu. Helgi er þó mjög bjartsýnn og hefur svo sannarlega ástæðu til því á dögunum fór hann í sýnatöku þar sem sjö sýni voru tekin úr hjartanu og sett í ræktun. Í ljós kom að í engu sýnanna kom fram höfnun á hjartanu og eru það mjög góðar niðurstöður. Eins og áður segir vonast Helgi eftir því að geta verið sem lengst á sjúkrahúsinu í Gautaborg meðan hann er að jafna sig eftir aðgerðina. „Ég verð að passa mig mjög vel því ofnæmiskerfið er bælt og það er mikil hætta á sýkingum. Ég er ofsalega þakklátur fyrir allan þann stuðning sem ég hef fundið að heiman frá ættingjum og vinum og ég hlakka til að koma stálsleginn heim,“ sagði Helgi Einar að lokum.
Styrktarreikningar tileinkaðir Helga Einari
Tveir styrktarreikningar hafa verið stofnaðir til að styðja við bakið á Helga Einari. Annar þeirra er í Sparisjóðnum í Keflavík og er reikningsnúmerið: 1109-05-409899. Hinn reikningurinn er við Landsbankann í Grindavík og er reikningsnúmerið 143-05-60707.
Ljósmyndir úr hjartaaðgerð: Ingi R. Ingason.