Hjálmar blæs til heilsuverndar
Tíðni hjartaáfalla og dauðsfalla þeim tengdum eru mun meiri á Suðurnesjum en í öðrum landshlutum. Þetta kom fram í máli Hjálmars Árnasonar, alþingismanns og formanns Hjartaheilla á Suðurnesjum, í dag en til að mæta því hefur verið hrundið af stað forvarnarverkefninu Heilsuefling á Suðurnesjum.
Markmið verkefnisins er að breyta lífstíl Suðurnesjamanna með kerfisbundinni hreyfingu og heilsueftirliti. Hjálmar sagði þetta vera stærsta heilsuverndarátak sem ráðist hafi verið í á afmörkuðu svæði á Íslandi, en í því felst að íbúar á svæðinu, 40 ára og eldri, skrá sig til þátttöku og mæta reglulega í eftirlit hjá fyrirtækinu InPro sem hefur aðsetur í húsi Lyfju á Hringbraut í Reykjanesbæ. Þar er blóðþrýstingur og blóðfita mæld til að koma auga á áhættuþætti sem benda til hjartasjúkdóma. Þá fá þátttakendur svokallaðan hreyfiseðil sem þeir nota til að skrá hjá sér upplýsingar úr prófunum og til að halda æfingadagbók.
„Við ætlum að ná til allra Suðurnesjabúa 40 ára og eldri og skima þá sem eru í hættu og koma öðrum til heilbrigðara lífernis en við erum almennt að stunda í dag,“ sagði Hjálmar í viðtali við Víkurfréttir eftir kynninguna, en viðtal við Hjálmar í fullri lengd má finna á vefsjónvarpi VF.is.
Samstarfsaðilar verkefnisins eru fjölmargir, þar á meðal sveitarfélögin á Suðurnesjum, stéttarfélögin, HSS, FS, Golfklúbbur Suðurnesja, Glitnir og líkamsræktarstöðvarnar Lífsstíll, Perlan og Helgasport. Þar má líka nefna Íþróttaakademíuna sem mun bjóða upp á fjölbreytta dagskrá í sambandi við átakið sem felur í sér margs konar fróðleik og hreyfingu.
„Þetta sýnir okkur að samfélagið hér á Suðurnesjum ætlar að taka höndum saman um að breyta lífstíl og draga úr þeim áhættuþáttum sem sannarlega eru hér til staðar“, sagði Hjálmar og bætti við að lokum:
„Ég hef þessa reynslu sjálfur og ég veit hvaða gildi það hefur að hreyfa sig og borða rétt. Við höfum horft á sorgleg dæmi síðustu daga þar sem fólk á besta aldri er að falla snögglega frá og við viljum koma í veg fyrir slíkt með þessu átaki og til þess þurfum við að breyta lífstíl og það gerum við með því að sparka í rassinn hvert á öðru.“
Eftir kynningu á námskeiðinu voru bæjarstjórar og fulltrúar stéttarfélaganna teknir í prufu. Ekki voru niðurstöður gerðar opinberar en ekki hefur enn heyrst af óvæntum heilsubótarfríum úr þeim ranni.
Smellið hér til að sjá viðtal við Hjálmar og svipmyndir frá fundinum í dag.
VF-myndir/Þorgils