Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hjálmar Árnason segir Össur tala eins og götustrák
Miðvikudagur 10. nóvember 2004 kl. 15:39

Hjálmar Árnason segir Össur tala eins og götustrák

Hjálmar Árnason þingmaður Framsóknarflokksins gagnrýnir Össur Skarphéðinsson formann Samfylkingarinnar harðlega í grein sem birtist á heimasíðu Hjálmars. Gagnrýnin kemur í kjölfar ummæla Össurar í garð forsætisráðherra á alþingi á mánudag þar sem Össur sagði Halldór Ásgrímsson vera forsætisráðherra olíufélaganna. Í grein sinni segir Hjálmar að samráð olíufélaganna sé eitt alvarlegasta mál sem upp hafi komið í samfélaginu í áraraðir. Hjálmar segir að málefni olíufélaganna séu í eðlilegum farvegi þar sem hinir seku verði dregnir fyrir dómstóla með viðeigandi afleiðingum.
Hjálmar segir í grein sinni að á mánudag hafi birtst sú lágkúrulegasta sýndarmennska er lengi ef nokkru sinni hafi orðið í þingsölum. „Í stuttu máli gekk hún út á það að Össur manaði forsætisráðherra til að kalla olíufurstana á sinn fund, minna á afsökunarbeiðni þeirra og fara vinsamlegast fram á að þeir endurgreiddu þjóðinni oftekið fé. Halldór Ásgrímsson svaraði því eina sem hægt var að svara: Að málið væri enn til rannsóknar og biði úrskurðar dómstóla. Ábyrgur stjórnmálaforingi getur auðvitað engu öðru svarað. Því uni Össur hins vegar illa og sakaði forsætisráðherra um að verja olíufélögin – jafnvel að vera forsætisráðherra olíufélaganna. Heyr og endemi. Og Össur vill láta taka sig alvarlega. Hefur hann gleymt þrískiptingu valdsins? Ætlast hann til að ráðherra grípi fram fyrir hendur rannsóknaraðila og dómstóla? Ætlar hann að réttlæta eitt lögbrot með öðru? Í miðri rannsókn!,“ segir Hjálmar í grein sinni og hann heldur áfram. „ Framganga Össurar á þingi í dag varð honum til háborinnar skammar. Tilgangurinn virðist sá einn að reyna að hefja sjálfan sig til fjölmiðlaflugs enda talaði hann í forsíðuvænum fyrirsögnum. Svo mikill er ákafi formanns Samfylkingarinnar að hann lætur lög og reglur (sem hann á sjálfur þátt í að samþykkja) lönd og leið. Tilgangurinn helgar meðalið: Sýna þjóðinni að Össur Skarphéðinsson sé hinn borni leiðtogi. Hvort lög séu virt eða reglur gildir einu. Umræða hans í dag hafði í raun ekkert með olíusamráðið að gera – hún snerist um óþolinmóðan stjórnmálamann sem ætlast til að upphlaup hans séu tekin alvarlega. Hann sendi þinginu langt nef, hann sendi rannsóknaraðilum lang nef og hann sendi dómstólum langt nef. Flug hans verður tæpast langt með slíkum slætti. Og sannarlega er það ekki í þágu réttlátrar málsmeðferðar. Hann talaði eins og hver annar götustrákur.“

Grein Hjálmars Árnasonar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024