Hitaveitugullið talið tryggt í bönkum
Það fé sem sveitarfélögin á Suðurnesjum fengu við sölu á hlutum í þeirra í Hitaveitu Suðurnesja er talið tryggt í bönkum. Um þetta eru bæjarstjórar sveitarfélaganna sammála.
Sveitarfélögin Garður, Sandgerði, Vogar og Grindavík fengu öll umtalsverða fjármuni eftir sölu á hlutum þeirra í HS. Grindavík fékk 4,5 milljarða fyrir sinn hlut, Sandgerði 2,8 milljarða, Garður 2,4 milljarða og Vogar 1,4 milljarða.
Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði, segir að söluandvirðið sé að mestu í vörslu Sparisjóðsins í Keflavík við góða ávöxtun. Hluti þess sé í vörslu Glitnis og hafi ávöxtun þess verið þolanleg.
„Forsætisráðherra og viðskiptaráðherra hafa fortakslaust lýst því yfir að allar innstæður í íslenskum bönkum á Íslandi séu tryggðar að fullu og án hámarks. Enginn þurfi að óttast um innstæður sínar.
Í ljósi þessa er talið og annað ekki vitað en að fjármunirnir bæjarfélagsins séu tryggir en bæjarráð fylgist náið með stöðu mála á fjármálamarkaði í góðu samstarfi við stjórnendur Sparisjóðs Keflavíkur og fjármálaráðgjafa sveitarfélagsins, sagði Sigurður Valur í samtali við VF.
Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í Vogum tekur í sama streng og Sigurður. Söluandvirðið sem sveitarfélagið fékk við söluna á HS sé í vörslu Sparisjóðsins í Keflavík og samkvæmt yfirlýsingum ráðherra eigi allar innstæður bönkum að vera tryggðar. „Í ljósi þess telur bæjarráð Sveitarfélagsins Voga, sem jafnframt er stjórn Framfarasjóðs Sveitarfélagsins Voga, ekki ástæðu til að breyta um stefnu hvað varðar ávöxtun fjárins að svo stöddu,“ segir Róbert. Hann segir bæjarráð fylgjast grannt með gangi mála.
„Forsætisráðherra hefur lýst því yfir að innlán séu tryggð í öllum íslenskum bönkum og undir það hafa ráðherrar annarra ráðuneyta tekið. Við verðum að treysta að þessi yfirlýsing standi. Fjármunir Grindavíkurbæjar, sem fengust fyrir söluna, eru allir á innlánsreikningi og þar hafa þeir verið að ávaxta sig. Nefnd um fjárvörsluna hefur fundað oft undanfarið og staðan verið veginn og metin frá
degi til dags, segir Jóna Kristjón Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri í Grindavík.
Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði, tekur í sama streng og kollegar hennar í hinum sveitarfélögunum. Samkvæmt yfirlýsingum forsætisráðherra séu innlán tryggð að fullu.
„Framtíðarsjóður Sveitarfélagsins Garðs er á innlánsreikningi í Sparisjóðnum í Garði sem er útibú Sparisjóðsins í Keflavík. Sjóðurinn hefur verið þar frá upphafi eða frá 16. júlí 2007. Hann hefur ávaxtast vel á tímabilinu,“ sagði Oddný.