Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hitaveitu Suðurnesja hf. skipt í tvö félög
Mánudagur 1. desember 2008 kl. 16:33

Hitaveitu Suðurnesja hf. skipt í tvö félög

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hluthafafundur Hitaveitu Suðurnesja hf ákvað í dag að skipta fyrirtækinu upp í tvö aðskilin fyrirtæki og var áætlun þar að lútandi samþykkt á fundinum. Í þessari ákvörðun felst að veitukerfi fyrir raforku, hitaveitu og ferskvatn verða í sérstöku félagi, en framleiðslan og sala raforku verður í öðru félagi. Þessi skipting er ákveðin í samræmi við nýlega lagasetningu um aðskilnað þessara þátta.

HS Orka hf verður framleiðslu- og sölufyrirtæki raforku, en HS Veitur hf verður dreifi- og veitufyrirtækið.  Í anda lagana um auðlindina er stefnt að því að ganga til samninga um að auðlindaréttindi Hitaveitu Suðurnesja hf verði seld til sveitarfélaga, sem síðan leigi HS Orku hf þau aftur til 65 ára.  Reykjanesbær hefur þegar undirbúið tilboð þessa efnis.  Árni Sigfússon er stjórnarformaður HS Veitna hf en Ásgeir Margeirsson stjórnarformaður HS Orku hf.

Árni Sigfússon bæjarstjóri og fráfarandi stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja hf fagnar þessari breytingu og segir hana gerða til að skapa sáttargjörð um fyrirhugaðan vöxt félagsins á sviði orkustarfssemi, með því að tryggja að eignarhald auðlindana verði áfram í opinberi eigu.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS hf. segir fyrirtækin standa ágætlega.  Aðskilnaðurinn eigi að geta styrkt áframhaldandi uppbyggingu orku-framleiðslunnar, sem eigi góða framtíð fyrir sér. Hann segir breytingarnar verða litlar fyrir núverandi viðskiptavini fyrirtækisins og kappkostað verði að veita áfram góða þjónustu.
Lögboðinn aðskilnaður

Þann 29. maí 2008 samþykkti Alþingi lög um breytingar á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði.  Samkvæmt þeim ber að aðskilja raf-, hita- og vatnsveitustarfsemi frá framleiðslu og sölu raforku í sérsökum félögum.  Undirbúningur þessa aðskilnaðar hefur staðið yfir frá því lögin voru sett og í dag, 1. desember 2008, var haldinn hluthafafundur í Hitaveitu Suðurnesja hf sem ákvað uppskiptingu fyrirtækisins í samræmi við lögin og samþykkti áætlun um skiptinguna. Hluthafafundurinn samþykkti jafnframt að breyta nafni Hitaveitu Suðurnesja hf í HS Orku hf og mun félagið framvegis annast framleiðslu og sölu raforku, hitaveituvatns og ferskvatns.  Í kjölfar hluthafafundarins var haldinn stofnfundur HS Veitna hf sem mun eiga og reka veituhluta fyrirtækisins í framtíðinni. Nýjar stjórnir voru kjörnar fyrir bæði félögin. Enginn stjórnarmanna situr í stjórnum beggja félaga sem verða skipaðar 7 stjórnamönnum og jafnmörgum varamönnum.


Tilboð Reykjanesbær í auðlindaréttindin
Til að eignarhald núverandi auðlinda fyrirtækisins verði í almannaeigu í samræmi við anda laganna er gengið út frá því að auðlindaréttindi fyrirtækisins verði seld til sveitarfélaga, sem síðan leigir HS Orku hf þau aftur til 65 ára. Á hluthafafundinum var kynnt að tilboð þess efnis væri að vænta frá Reykjanesbæ.

Lítil röskun
Við undirbúning og skipulag uppskiptingar Hitaveitu Suðurnesja hf í HS Orku hf og HS Veitur hf hefur verið unnið í samræmi við það meginmarkmið að raska núverandi starfsemi eins lítið og unnt væri og um leið að óhjákvæmilegur kostnaðarauki vegna aðskilnaðarins verði í lágmarki. Jafnframt er lögð áhersla á að varðveita eftir föngum þá jákvæðu heildarmynd sem Hitaveita Suðurnesja hf hefur gefið af sér. Ennfremur að áhrif breytinganna á starfsmenn fyrirtækisins verði sem allra minnst. Miðað er við að núverandi starfsmenn starfi hjá HS Orku hf en gerður verði þjónustusamningur milli fyrirtækjanna þannig að HS Orka hf annist daglegan rekstur fyrir HS Veitur hf. Yfirstjórn hinna nýju fyrirtækja verður þannig hin sama og verið hefur hjá Hitaveitu Suðurnesja hf síðustu 16 árin og verður Júlíus Jónsson forstjóri og Albert Albertsson aðstoðarforstjóri.

Mat á rekstrarvirði Hitaveitu Suðurnesja
Ráðgjafarfyrirtækið Capacent framkvæmdi nú í haust mat á rekstrarvirði hinna aðskildu rekstrarþátta og var niðurstaðan sú, að í skiptingu væri rekstrarvirði HS Orku hf um 73% en HS Veitna hf um 27%.  Samkvæmt árshlutareikningi 30. júní s.l., en á honum er skiptingin byggð, var eiginfjárhlutfall Hitaveitu Suðurnesja hf. um 54%. Samkvæmt skiptingarefnahagsreikningi, sem miðast við 1. júlí, er eiginfjárhlutfall HS Orku hf um 45,2% en 56,7% hjá HS Veitum hf. Mismunandi eiginfjárhlutfall skapast m.a. af þeirri ákvörðun að HS Orka hf yfirtaki öll erlend lán félagsins, enda hefur framleiðslustarfsemin miklar tekjur í erlendri mynt, en HS Veitur hf verða eingöngu skuldsettar í íslenskum krónum þar sem allar tekjur fyrirtækisins eru innlendar.
Næst liggur fyrir að ganga frá samkomulagi við helstu lánardrottna fyrirtækisins um breytingarnar, aðallega þær erlendu, en þeir eru  Norræni fjárfestingarbankinn (NIB), Evrópski fjárfestingarbankinn (EIB) og Þróunarbanki Evrópu (CEB).
Eftir þessa tvo fundi í dag heyrir Hitaveita Suðurnesja hf þannig í raun sögunni til og við taka hin nýju fyrirtæki, sem áður voru nefnd.  Verkefni þeirra næstu misseri verður að koma skiptingunni til framkvæmda á eins skilvirkan og hagkvæman hátt og unnt er og síðan að nýta þau tækifæri sem m.a. einfaldari tilgangur og skýrari markmiðasetning skapar til vaxtar í framtíðinni.

Lítil breyting fyrir viðskiptavini fyrirtækisins
Viðskiptavinir fyrirtækisins verða lítt eða ekki varir við breytingarnar fyrr en um áramót, en fyrirtækin leggja mikla áherslu á að þær valdi viðskiptavinum sem allra minnstum óþægindum. Fyrirtækin munu kappkosta að veita áfram góða þjónustu og sem fyrr leita leiða til að gera hana enn betri.

Kennimerki fyrirtækjanna og fleira
Síðustu mánuðir og vikur hafa farið í vinnu við að undirbúa uppskiptinguna.  Skipta þarf upp bókhalds- og upplýsingakerfum, lagerum, gera nýtt skipurit fyrir fyrirtækin og skoða allt sem snýr að ímyndinni, samskiptum við viðskiptavini og lánadrottna, heimasíðu og margt fleira.
Búið er að ákveða kennimerki hinna nýju fyrirtækja.  Ákveðið var að HS veitur hf haldi núverandi merki Hitaveitu Suðurnesja hf en merki HS orku hf kom eftir hugmyndasamkeppni sem haldin var á meðal starfsmanna HS hf.