Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 28. mars 2002 kl. 11:36

Hitaveitu milljarður til útgreiðslu á Suðurnesjum

Um einn milljarður króna rennur til sveitarfélaganna á Suðurnesjum á árinu 2001 og 2002 vegna breytingar á rekstrarformi Hitaveitu Suðurnesja en fyrirtækið varð að hlutafélagi á síðasta ári. Arðgreiðsla til Reykjanesbæjar nemur um 670 milljónum króna vegna hf-væðingarinnar. Það er u.þ.b. helmingur byggingarkostnaðar Heiðarskóla.Góð og nauðsynleg hf-væðing
Við hf-væðingu Hitaveitunnar á síðasta ári rann Rafveita Hafnarfjarðar inn í fyrirtækið og í byrjun þessa árs voru Bæjarveitur Vestmannaeyja keyptar. Það hafa því strax orðið ákveðnar breytingar á rekstri við hlutafélagsvæðinguna. Almennur rekstur Hitveitunnar var mjög góður á árinu 2001 og eins og fyrr greinir eru
arðgreiðslur miklar og nema við breytinguna í hf. um 1350 milljónum kr. Í fyrra voru greiddar til eigenda 520 m.kr. og í ár 830 milljónir. Samþykkt var að miða við að arðgreiðslur nemi þriðjungi hagnaðar hvers árs. Ef reksturinn gengur vel áfram er því ljóst að eigendurnir, m.a. sveitarfélögin á Suðurnesjum munu fá talsverða peninga á hverju ári.
Sigurður Ingvarsson, fráfarandi stjórnarformaður sagði á aðalfundinum í gær að hlutafélagsformið gerði fyrirtækinu kleift að bregðast hratt og ákveðið við auknu viðskiptafresli, markaðs- og alþjóðavæðingu.


Góður rekstur
Rekstrartekjur HS á síðasta ári námu rúmlega 2,8 milljörðum króna sem er 4% hækkun á krónutölu frá fyrra ári. Tekjurnar eru helstar vatnssala (38,7%), almenn raforkusala (48,8%), raforkusala til Landsvirkjunar (10,4%) auk minni þátta eins og ferskvatnssölu. Rekstrargjöld voru 2.2 milljarðar króna. Lokaniðurstaða rekstrarreiknings 2001 var talsvert betri en árið áður eða 613 m.kr. hagnaður í stað 241 m.kr. árið 2000.

Áfram fylgst með þróun í samruna
Í máli Júlíusar Jónssonar, forstjóra HS kom fram að búast má við frekari samruna og sameiningu fyrirtækja í þessari grein. „Þá mun Hitaveita Suðurnesja að sjálfsögðu fylgjast náið með þróuninni og athuga hvort upp koma möguleikar sem gætu verið fyrirtækinu og eigendum þess hagstæðir til framtíðar litið. Það er brýnt að nýa þau tækifæri sem gefast á slíkjum umbrotatímum því að þeim loknum má búast við að nokkuð stöðugt ástand skapist sem setji stækkun og eflingu fyrirtækjanna nokkuð ákveðnar skorður“, sagði Júlíus og bætti við að flestir virðist telja að fyrirtækin í nánstu framtíð verði 4-5, þ.e. Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja og Rarik/Orkubú Vestfjarða/Norðurorka.
„Verði þetta niðurstaðan má ljóst vera að HS hf. verður væntanlega minnsta fyrirtækið í veltu, þrátt fyrir „útrásina“, en hinsvegar st efnum við að því að það verði arðbærast og að fyrirtækið bæti stöðu sína, bæði markaðslega og í möguleikum á frekari virkjunum. Takist það ekki má búast við að það verði fyrr eða síðar gleypt í heild eða að hluta af einhverju hinna“, sagði Júlíus.

Júlíus greindi frá hinum ýmsu rekstrarþáttum hitaveitunnar. Almenn gjaldskrá er t.d. 9-10% lægri en í Reykjavík og afltaxti um 14%. Orkuverð HS hækkaði þó um 5% 1. sept. sl. eftir að hafa verið óbreytt í tíu ár. Raunvirði orkuverðs hefur hins vegar lækkað því hefði vatnsverðið fylgt vísitölu frá 1985 væri hvers hvers mínútulítra 3580 kr. í stað 1940 kr. Sparnaður miðað við það er um 90 þús. kr. á hvert heimili sé miðað við 3 mínútulítra á heimili og 3500 kWh.

Ellert stjórnarformaður
Nokkur spenna var í loftinu í stjórnarkjöri. Ellert Eiríksson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ fékk flest atkvæði í kosningu um formann stjórnar Hitaveitunnar eða 7 atkvæði af 12, Óskar Þórmundsson fékk 4 en einn seðill var auður. Óskar fékk svo kosningu um varaformanninn og lagði þar bæjarstjórann í Hafnarfirði, Magnús Gunnarsson með aðeins einu atkvæði. Magnús var síðan kjörinn ritari Hitaveitu Suðurnesja hf. en Hafnarfjarðarbær er næst stærsti hluthafinn ásamt Ríkissjóði með 16,67%. Reykjanesbær er lang stærstur með 43,5% hlut. Sveitarfélögin á Suðurnesjum skipta restinn á milli sín, Grindavík er með 9,31%, Sandgerðisbær 5,83%, Gerðahreppur 5,06% og Vatnsleysustrandarhreppur 2,98%.
Aðrir í stjórn voru kjörnir Guðbjörn Herbertsson frá Reykjanesbæ, Tryggvi Harðarson frá Hafnarfirði, Guðjón Hjörleifsson frá Vestmannaeyjum, Ómar Jónsson frá Grindavík, Jón Norðfjörð frá Sandgerðisbæ, Sigurður Ingvarsson frá Gerðahreppi, Þóra Bragadóttir frá Vatnsleysustrandarhreppi, Guðjón Stefánsson frá Iðnaðarráðuneyti og Árni Ragnar Árnason frá Fjármálaráðuneytinu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024