HITAVEITAN METIN Á 8 MILLJARÐA
Verðgildi Hitaveitu Suðurnesja er rúmlega 8 milljarðar króna en stjórn fyrirtækisins lét Kaupþing hf. vinna matið nýlega. Að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra HS er þessi tala ekki langt frá eigin fé fyrirtækisins sem er um 7 milljarðar. Í drögum að nýjum raforkulögum er gert ráð fyrir því að öll orkufyrirtæki verði gerð að hlutafélögum á næstu tveimur árum.Aðalfundur Hitaveitunnar verður haldinn á morgun. Að sögn Júlíusar eru viðræður við Landsvirkjun loks hafnar og fyrstu drög að samrekstrarsamningi um raforkusölu komin á blað en í haust opnast þessir möguleikar þegar orkuver 5, sem nú er í byggingu verður tekið í notkun. Eignarhlutur Reykjanesbæjar í fyrirtækinu er 52,2 % eða um 4,2 milljarðar króna. Þessi eign er ekki talin með í bæjarreikningunum.