Hitaveitan með í sæstrengslögn?
Hitaveita Suðurnesja er meðal aðila að fyrirhuguðum sæstreng milli Íslands og Danmerkur. Þetta hefur RÚV eftir heimildum sínum. Ásamt HS eru það Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun sem hyggjast kaupa hlut í Farice, sem rekur þegar sæstreng milli Íslands og Evrópu. Kostnaður við verkefnið er um 2-3 milljarðar en enn er óljóst hver mun bera kostnaðinn af strengnum.
Fréttastofa RÚV hefur einnig eftir Árna Sigfússyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar og stjórnarformanni HS, að leitað hafi verið til orkufyrirtækja um að leggja til fé í nýjan sæstreng. Það tengist hugsanlegri orkusölu til dæmis til netþjónabúa.
Umræða um netþjónabú á Íslandi hefur verið afar áberandi undanfarna mánuði og eru ýmsir aðilar að skoða möguleikana sem Keflavíkurflugvöllur býður upp á í þessu samhengi.
H: www.ruv.is
VF-mynd/elg: Frá orkuveri HS í Svartsengi