Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sunnudagur 24. febrúar 2002 kl. 02:49

Hitaveitan dæmd til að greiða 14.4 milljónir kr. í bætur vegna vinnuslyss

Hitaveita Suðurnesja hf. var á fimmtudag dæmd til að greiða Bjarna E. Ísleifssyni, 14.4 milljónir ásamt vöxtum og dráttarvöxtum vegna vinnuslyss sem Bjarni varð fyrir í orkuveri Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi. Héraðsdómur hafði áður dæmt Bjarna tæpar 21 milljón kr. í bætur en Hitaveitan áfrýjaði þeim dómi til Hæstaréttar Íslands. Hinn 26. október 1998 varð Bjarni fyrir alvarlegu slysi í starfi sínu hjá Hitaveitu Suðurnesja. Lenti vinstri fótur hans þá í viftuspaða með þeim afleiðingum að nokkru síðar þurfti að aflima hann neðan við hné. Hefur Bjarna verið metin 50% varanleg örorka og 40% varanlegur miski vegna slyssins.
Nánari tildrög þessa atviks voru þau að Bjarni var í umrætt sinn staddur á þaki svokallaðs loftkælivirkis, sem rekið er í tengslum við orkuverið í Svartsengi. Er þetta mannvirki reist á súlum, en ofan á því í um sjö metra hæð eru 36 láréttir viftuspaðar, hver innan sérstaks viftuhrings, sem er um 4 metrar í þvermál og með upphækkaðri brún. Er lofti dælt inn í orkuverið með þessum spöðum og hvílir hver þeirra á lóðréttum öxli, sem tengdur er við rafmótor fyrir hverja viftu er knýr spaðann áfram. Hafði gagnáfrýjandi áðurnefndan dag verið sendur upp á loftkælivirkið til að bæta olíu á gír á viftu, en til þess þurfti að stöðva hana og fara ofan í viftuhringinn. Áður voru gerðar ráðstafanir í stjórnhúsi, sem stendur í um 100 metra fjarlægð frá loftkælivirkinu, til að slá út rafmagni af viftunni. Voru spaðarnir nálægt mittishæð, þegar staðið var inni í hringnum. Að loknu verki varð gagnáfrýjandi þess var að önnur vifta hafði stöðvast og sá hann á sérstöku mæliglasi að komið var að mörkum þess að næg olía væri á gír hennar. Steig gagnáfrýjandi inn í viftuhringinn til að bæta úr þessu þegar viftuspaðinn fór skyndilega af stað og skall á vinstri fæti hans með þeim afleiðingum, sem áður greindi.
Deilt var um hvort skilyrði væru til að fella skaðabótaskyldu á Hitaveitu Suðurnesja hf. vegna tjóns Bjarna. Í ljós var leitt að gangsetningarbúnaði umræddrar vélar var áfátt og mátti rekja slysið til þess að hluta. Ábyrgð á þessu var felld á Hitaveitu Suðurnesja hf. Jafnframt var félagið látið bera ábyrgð á breytingu sem framkvæmd hafði verið án þess að mæta jafnframt aukinni hættu sem þessu fylgdi. Við úrlausn málsins var ekki framhjá því litið að Bjarni hafði með háttsemi sinni í umrætt sinn brotið gegn fyrirmælum og öryggisreglu og var ekki talinn hafa getað treyst því að straumur væri aftengdur, svo sem hann kvaðst hafa gert, án þess að ganga beinlínis úr skugga um það. Þótti samkvæmt þessu hæfilegt að Bjarni bæri sjálfur þriðjung tjóns síns en Hitaveita Suðurnesja hf. tvo þriðju hluta þess. Til grundvallar tjóni var miðað við meðaltekjur vélfræðinga á sjó og í landi, segir í skjölum frá Hæstarétti.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024