Bilakjarninn
Bilakjarninn

Fréttir

Hitaveita Suðurnesja: Kaninn borgar ekki
Föstudagur 30. mars 2007 kl. 18:40

Hitaveita Suðurnesja: Kaninn borgar ekki

Aðalfundur Hitaveitu Suðurnesja fór fram í Svartsengi í dag. Þar kom m.a. fram að enn hafa bandarísk stjórnvöld ekki reitt fram þær tíu milljónir dala sem þeir buðu HS vegna riftunar á samningi hersins við Hitaveituna og stjórn fyrirtækisins samþykkti.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS, sagði í tölu sinni að formlegt samkomulag hafi ekki enn verið undirritað þrátt fyrir stífa eftirfylgni af hálfu HS, og þ.a.l. hafi greiðslan ekki verið innt af hendi. Málið er nú strandað í meðferð vestanhafs, en þar er því borið við að mjög erfitt sé að afgreiða málið þar sem þessi útgjöld falli undir fyrra fjárhagsár.

Annars hefur verið vel unnið úr því áfalli sem varð með brotthvarfi hersins og er tekjutapið ekki eins mikið og gert var ráð fyrir í fyrstu.

Júlíus skýrði frá því að Orkuver 6 í Svartsengi verði reiðubúið undir lok þessa árs og hefur þegar verið boðað til vígsluathafnar þann 15. desember.

Þá lýsti Júlíus furðu sinni á málflutningi Landverndar, sem hefur kynnt hugmyndir um Eldfjallagarð á Reykjanesi. Svo virðist sem þeim hafi brugðist reikningslist í sambandi við fyrirhugaðar tekjur af garðinum, en miðað var við afkomutölur eldfjallagarðs á Hawaii. Þar eru tekjur sagðar um 5 milljarðar íslenskra króna, en tekjurnar virðast einungis nema 7 milljónum dala, sem myndu samsvara tæpum 500 milljónum.

Meðal annars sem dró til tíðinda á fundinum var brotthvarf Ellerts Eiríkssonar úr sæti stjórnarformanns, en í hans stað var kjörinn Árni Sigfússon.

Nánari fréttir af aðalfundinum síðar...
Bílakjarninn
Bílakjarninn