Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 26. ágúst 2002 kl. 01:13

Hitaveita Suðurnesja hf. skoðar virkjun á Reykjanesi

Hitaveita Suðurnesja hf. vinnur nú að umhverfismati á borsvæðum á Reykjanesi og vegna 220 kV línu í tengslum við raforkuöflun fyrir stækkun álvers Norðuráls. Rannsóknir eru að hefjast á hvernig best verði að vinna orkuna úr svæðinu, en vegna hærra hitastigs, seltu og meira efnainnihalds er svæðið á Reykjanesi að ýmsu leyti erfiðara til virkjunar en Svartsengissvæðið. Þá er unnið að áætlunargerð um kostnað og fyrirkomulagi fjármögnunar slíkrar virkjunar, því að sjálfsögðu verður þessi virkjun að vera arðbær til að í hana verði ráðist, segir Júlíus Jónsson forstjóri HS á vefsvæði fyrirtækisins.Nú hafa aukist líkur á því að stækkun álvers Norðuráls geti átt sér stað innan þeirra tímamarka sem miðað hefur verið við, þ.e. á árinu 2005.
Landsvirkjun og Norðurál hafa undirritað viljayfirlýsingu þar sem fram koma þau meginatriði sem semja þarf um en eftir úrskurð Skipulagsstofnunar um Norðlingaöldu virðast miklar líkur á að sá fyrirvari í viljayfirlýsingunni reynist óþarfur, en Norðlingaalda hefur verið talin helsti þröskuldur þess að af stækkuninni geti orðið.
Landsvirkjun hefur síðan verið að ræða við HS hf og Orkuveitu Reykjavíkur um þátttöku í orkuöfluninni og hefur þeim viðræðum miðað ágætlega.
Helstu álitamál svo sem flutningskostnaður raforkunnar virðast vera leyst og vandséð að samningar geti ekki gengið upp. Miðað er við að 70 MW komi frá Landsvirkjun og um 40 MW frá Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja hf. hvoru fyrir sig, en 150 MW þarf vegna stækkunar álversins um 90 þús. tonn.
Miðað við 40 MW virkjun má að telja líklegt að virkjunin verði hönnuð a.m.k. tvisvar sinnum stærri en síðan í þessum áfanga einungis gert það sem nauðsynlegt er vegna 40 MW áfanga.
Fyrri áfanginn verður þá tiltölulega dýrari, en tvöföldunin þá þeim mun hagkvæmari.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024