„Hitamál” hugsanlega útkljáð fyrir dómstólum
Innan Hitaveitu Suðurnesja er nú unnið að því að greina kostnað fyrirtækisins sem hlýst af því að Varnarliðið hættir viðskiptum sínum við það. Bandarísk hermálayfirvöld fóru fram á þessar tölur í viðræðum við fulltrúa HS sem fram fóru vestanhafs í síðustu viku.
Á stjórnarfundi HS í morgun kom mál þetta til umfjöllunar. Ekki er talið vænlegt til árangurs að fara fram á bætur vegna tekjutaps sem HS verður fyrir við brotthvarf VL og því snúast viðræðunar um kostnað fyrirtækisins vegna þessa. Hitaveitan hefur í gegnum tíðina staðið í umtalsverðum framkvæmdum og fjárfestingum vegna veitukerfa til að standa við sinn hluta samningsins um sölu og afhendingu á heitu vatni til VL. Telja forsvarsmenn HS að eftir sé að semja um hversu mikill hluti þess kostnaðar verði endurgreiddur en fulltrúar VL hafa beðið um tölur þessu viðkomandi.
Fréttastofa Útvarps segir frá því í morgun að hugsanlega þurfi að útkljá málið fyrir bandarískum dómstólum. Haft er eftir Júlíusi Jónssyni, forstjóra HS, að verði rökstuddar tillögur HS ekki samþykktar verði tekið á því ef til þess kemur en fyrirtækið telji sig vera með sterka lagalega stöðu.
VF-mynd: elg