Hirtu peningana og tóku til fótanna
Garðar Vilhjálmsson, bæjarfulltrúi Sjálftæðismanna í Reykjanesbæ, sendir tóninn þeim sveitarfélögum á Suðurnesjum sem seldu hluti sína í Hitaveitu Suðurnesja (HS). Hann segir þau hafa „tekið peningana og tekið til fótanna“ á meðan Reykjanesbær hafi staðið vörð um framtíðarhagsmuni.
Þetta kom fram í máli Garðars í umræðu á síðasta bæjarstjórnarfundi um ársreikning Reykjanesbæjar. Um helmingur þess 8 milljarða taps, sem samstæðureikningurinn sýnir, er vegna eignarhlutar bæjarins í HS.
Skemmst er að minnast viðbragða bæjarstjóranna á Suðurnesjum vegna orðalags í fréttatilkynningu frá Reykjanesbæ þar sem því er haldið fram að Reykjanesbær hafi „staðið vaktina þegar önnur sveitarfélög seldu hlut sinn í Hitaveitunni og lögðu hagnað á ávöxtunarreikninga,“ eins og það er orðað.
Bæjarstjórarnir í hinum sveitarfélögunum brugðust allir við og sendu frá sér orðsendingar þar sem spurt var hvaða vakt Reykjanesbær hefði staðið umfram önnur sveitarfélög. Þær greinar er hægt að lesa hér á vf.is undir liðnum Aðsent.
„Við tókum þá ákvörðun að verja okkar ríflega þriðjungshlut. Og lái okkur hver sem vill. Það kostar okkur fjóra milljarða að reikna það inn í þennan ársreikning en til framtíðar höfum við þá trú að Hitaveitan og það sem henni fylgir sé það sem skapi tækifæri hér til uppbyggingar. Og við vildum vernda þau tækifæri og hafa stjórn á því að þau færu ekki á eina hæð inn í Orkuveituhúsi. En hvar voru hin sveitarfélögin í því? Þeim var alveg skítsama, þau vildu bara fá peninginn. Þau greiddu atkvæði með fótunum, tóku peninginn og tóku til fótanna,“ sagði Garðar m.a. í ræðstól.