Hilmar Þór er gestafræðimaður við University of Cambridge
Var að gefa út nýja bók um efnahagsstefnu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna
Út er komin ný bók eftir Dr. Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri. Útgefandi bókarinnar er Routledge Taylor & Francis Group. Bókin ber titilinn: The Economic Crisis and its Aftermath in the Nordic and Baltic Countries - Do As We Say and Not As We Do.
Hilmar hóf vinnu við bókina haustið 2016 þegar hann var gestafræðimaður (e. Visiting Scholar) við University of California Berkeley. Hann hélt síðan áfram með bókina sem gestafræðimaður við University of Cambridge á hausmisseri 2017 og lauk við hana í Cambridge í september síðastliðinn þar sem hann er gestafræðimaður á haustmisseri 2018
Norðurlöndin eiga bankakerfi Eystrasaltsríkjanna að mestu leyti
Í bókinni er meðal annars lögð áhersla á að greina áhrif þessa eignarhalds á efnahagsstefnu Eystrasaltsríkjanna þegar alþjóðlega kreppan skall á árið 2008. Segja má að þeim erlendu bönkum sem starfa í Eystrasaltsríkjunum hafi verið bjargað frá hruni meðal annars með fastgengisstefnu og miklum niðurskurði opinberra útgjalda í Eystrasaltsríkjunum, ekki síst til velferðarmála.
Hilmar segist aðspurður rannsóknina snúast um viðbrögð Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna við kreppunni sem skall á 2008 og árangur af mismunandi efnahagsstefnum. „Fyrst töldu t.d. ýmsir að fastgengisstefna Eystrasaltsríkjanna og upptaka evrunnar hefði skilað miklum árangri en nú er ljóst að hægt hefur á hagvexti í þessum löndum, atvinnuleysi er enn mikið. Velferðarkerfin sem voru veik fyrir eru varla til lengur vegna mikils niðurskurðar í ríkisfjármálum. Fólksflótti frá Eystrasaltsríkjunum hefur verið mikill, einkum meðal ungs fólks þannig að í kjölfar kreppunnar varð ungt menntað fólk þeirra aðal útflutningsvara. Þetta mun hafa slæm áhrif á hagkerfi þeirra til lengri tíma því þetta fólk flytur oft til Evrópulanda með hærri tekjur og hæpið að það snúi aftur til Eystrasaltsríkjanna. Á Íslandi féll gengið og bankarnir hrundu. Ef við skoðum árangur stefnunnar á Íslandi er hann mun betri. Mikill hagvöxtur, lítið atvinnuleysi og aukið svigrúm til útgjalda til velferðarmála.
Norðurlöndin, einkum Svíar sem eiga bankakerfið í Eystrasaltsríkjunum kröfðust fastgengisstefnu þar 2008 til þess að bjarga sínum bönkum. Evrópusambandi studdi þá dyggilega í þessu. Nú erum við að sjá að þetta hefur haft slæm áhrif á efnahag Eystrasaltsríkjanna. Svíar og Finnar lentu sjálfir í bankakreppu árin 1992-3. Þeir felldu gengið líkt og Ísland 2008 og í kjölfarið jókst útflutningur og um leið hagvöxtur og atvinnuleysið minnkaði. Þeir gripu sjálfir ekki til þeirra efnahagsaðgerða 1992-3 sem þeir kröfðust af Eystrasaltsríkjunum 2008.
Lærdómurinn sem við getum dregið að þessu er að efnahagsaðlögun með fastgengisstefnu eins og Eystrasaltsríkin reyndu tekur langan tíma og er mjög hæg. Þetta er að verða þeim dýrkeypt. Sum lönd innan Evrusvæðisins eru líka í vandræðum eins og við þekkjum og eiga erfitt með að aðlagast fastgengisstefnu sem felst í sameiginlegum gjaldmiðli. Ég sá þetta vel í Grikklandi þegar ég var gestaprófessor við National and Kapodistrian University of Athens á vormisseri 2018,“ segir Hilmar.
Vafasamt fyrir smáríki
Hilmar segir að annar lærdómur sé hversu vafasamt er fyrir smáríki eins og Eystrasaltsríkin að treysta á stærri og ríkari lönd eins og Svíþjóð og stofnanir eins og Evrópusambandið þegar kreppa skellur á. „Auðvitað hugsa önnur lönd og alþjóðastofnanir fyrst og fremst um eigin hag. Þetta þekkja Íslendingar af ICESAVE málinu og framkomu Hollands og Bretlands við okkur. Þessi lönd voru líka studd af Evrópusambandinu.
Ein megin ásætaða þess að Eystrasaltsríkin hafa gerst aðilar að Evrópusambandinu og tekið upp evruna eru öryggismál. Þau meta stöðuna þannig að ólíklegt sé að Rússland ráðist á land sem er í ESB og á evrusvæðinu. Þetta er að mínu mati rétt, en hefur reyndist þeim dýrkeypt efnahagslega. Auk þessa eru Eystrasaltsríkin aðilar að NATO. Íslendingar eru ekki með erfið landamæri við land eins og Rússland. Atlandshafið hefur veitt okkur skjól í gegnum aldirnar,“ segir Hilmar.
Flutt fyrirlestra í háskólum á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum
Þess má geta að Hilmar starfaði fyrir Alþjóðabankann (e. Word Bank) í fjögur ár í Eystrasaltsríkjunum og hefur undanfarin 10 ár flutt fyrirlestra og kennt við marga háskóla í þessum löndum, þar á meðal: Tallinn University of Technology og University of Tartu í Eistlandi; Stockholm School of Economics í Riga, University of Latvia og Riga Stradins University í Lettlandi; og Kaunas University of Applied Sciences, Klaipeda University og Vytautas Magnus University í Litháen. Hilmar hefur einnig flutt fyrirlestra og kennt við norræna háskóla, þar á meðal: Aalborg University og Copenhagen Business Academy í Danmörku; Haaga-Helia University of Applied Sciences í Finnland og Södertörn University í Svíþjóð.
https://www.amazon.co.uk/Economic-Crisis-Aftermath-Nordic-Countries/dp/1857439643