Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hildur kjörin varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna
Laugardagur 14. september 2013 kl. 11:24

Hildur kjörin varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna

Keflvíkingurinn Hildur Gunnarsdóttir var kjörinn varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) á sambandsþingi sem fram fór um síðustu helgi. Hildur er fædd og uppalin í Keflavík, fyrrum FS-ingur og starfar í dag sem lögfræðingur í lögfræðideild Landsbankans. „Þetta verkefni leggst virkilega vel í mig og mun ég leggja mig sérstaklega fram við að vekja athygli á þeim málum sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ hefur verið að berjast fyrir. Helst má þá nefna atvinnumálin og mikilvægi uppbygginggar á svæðinu. Þó svo að SUS hafi ekkert úrslitavald í þeim efnum þá skiptir allur meðbyr máli,“ sagði Hildur í samtali við Víkurfréttir.

Hildur hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hefur gegnt starfi formanns Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, undanfarin tvö ár. Samhliða því hefur hún einnig setið í stjórn SUS, en það eru regnhlífasamtök allra félaga ungra á landinu. Hlutverk varaformanns er að halda utan um innra starf ungra sjálfstæðismanna og gæta þess að aðildarfélögin séu virk. „Mitt hlutverk er að vera stjórnum þessara félaga innan handar, veita þeim upplýsingar og gæta þess að öll félög séu virk. Einnig situr varaformaður í framkvæmdastjórn SUS en framkvæmdastjórn annast daglegan rekstur sambandsins á milli stjórnarfunda og tekur ákvarðanir um mál, sem lúta að starfsemi sambandsins á hverjum tíma.“

Hlutverk SUS er að mati Hildar fyrst og fremst að berjast fyrir frelsi einstaklingsins til orðs og athafna og jafnframt að veita Sjálfstæðisflokknum aðhald. „Nú þegar flokkurinn er kominn í ríkisstjórn er þeim mun mikilvægara að vera virk í því hlutverki. Starfið í SUS hefur verið mjög gott undanfarin ár og við vonumst til að geta haldið því góða starfi áfram.“
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024