„Heyrt mismunandi útgáfur af borvélasögunni“
-segir Guðmundur Baldursson fíkniefnalögreglumaður í Keflavík í viðtali við Víkurfréttir
Guðmundur Baldursson fíkniefnalögreglumaður hjá Lögreglunni í Keflavík hefur starfað við rannsókn fíkniefnamála frá árinu 1986, en hann kom frá fíkniefnadeild Lögreglunnar í Reykjavík fyrir um einu ári. Guðmundur segir að lögreglumenn í Keflavík heyri mikið af sögum um ofbeldi í fíkniefnaheiminu, en hann segir að oft sé líklega um mismunandi útfærslur af sömu sögunni að ræða:
„Það er ekkert leyndarmál að við heyrum mikið af svona sögusögnum. Við teljum alveg fulla ástæðu til að taka þær alvarlega og við höfum okkar ástæður fyrir því að halda að þetta sé að gerast hér eins og annarsstaðar á landinu. Hinsvegar höfum við ekkert áþreifanlegt dæmi um það að svona hlutir hafi gerst því það hefur engin kæra borist út af fíkniefnatengdu ofbeldi. Við höfum til dæmis heyrt mismunandi útgáfur af borvélasögunni sem mikið hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og sögur af nauðgunum tengdum handrukkurum. Við höfum engar órækar sannanir fyrir því að svona hlutir hafi átt sér stað,“ segir Guðmundur. Í tengslum við sögusagnir af þessu tagi hefur oft komið upp sú umræða hvort þolendur slíks ofbeldis óttist hefndaraðgerðir af hálfu handrukkarana ef það kærir atburðinn til lögreglu. Guðmundur segir að slíkt sé vissulega þekkt: „Það er alveg ljóst að fólk er hrætt við þessi mál, en hugsanlega er fólk hrætt við hefndaraðgerðir handrukkaranna eða aðgerðir lögreglu og það heldur að handrukkararnir muni hefna sín ef það gefur upplýsingar um verknað eða hótun.“
Til að átta sig á þróun fíkniefnaneyslu á Íslandi er nauðsynlegt að líta á sögulegar staðreyndir og skoða hvernig neyslan hefur þróast. Guðmundur segir að fíkniefnaneyslu hafi fyrst orðið vart á Íslandi fyrir um 40 árum síðan: „Fyrir um 40 árum fóru að myndast hér á Íslandi litlar hassgrúppur og þar voru á ferðinni vinir og kunningjar sem deildu með sér efnum. Á þessum tíma var sölumennska fíkniefna lítt þekkt og vinir deildu með sér efnum. Það lá ekkert fyrir um það hver skuldaði hverjum, enda var það ekki aðalmálið. Á hippatímabilinu voru allir vinir og deildu efnunum.“ Guðmundur segir að ástandið hafi verið fremur „rólegt“ framundir 1990: „Í tengslum við hrun Sovétríkjanna opnaðist gríðarlegt flæði á amfetamíni til Vesturlanda og það kemur á markaðinn mjög ódýrt og sterkt efni. Efnið barst til Íslands og varð strax að vandamáli, en það var það sterkt að það var hægt að fjórfalda efnið áður en það var selt til neytenda. Við þetta verður algjör bylting á íslenska fíkniefnamarkaðnum sem hafði áður verið tiltölulega lokaður og svaraði í rauninni aldrei eftirspurn, því nóg var oftast til af hassi en það voru mest lokaðar klíkur sem voru að reykja hassið. Þegar þetta mikla magn af amfetamíni kemur til landsins er strax farið að markaðssetja efnið og framboðið á efninu er oft meira en eftirspurnin. Við þetta verður fíkniefnamarkaðurinn ópersónulegri og í kjölfarið hefst svo mjög skipulögð markaðssetning á efninu og markvisst er reynt að selja hverjum sem er efni.“
Guðmundur segir að á þessum tíma hafi efnið verið nokkuð dýrt og að neytendur hafi verið fljótir að koma sér í miklar skuldir: „Það græddu allir í keðjunni en sökum þess hve efnið var dýrt voru menn fljótir að steypa sér í miklar skuldir. Annað sem breyttist með tilkomu efnisins var að ofbeldi jókst því amfetamín er örvandi efni og hefur tilhneigingu til að auka verulega á ofbeldishneigð einstaklinga sem neyta efnisins. Það sem einkennir neyslu efnisins er tilefnislaust ofbeldi og er algengt að neytendur ráðist á dyraverði, lögreglumenn og aðra í kringum sig sem þeir telja eitthvað ögra sér.“
Í kringum 1990 starfaði Guðmundur með fíkniefnalögreglunni í Kaupmannahöfn og sögðu starfsfélagar hans þar að þar hafi skapast ákveðið jafnvægi á markaðnum þegar hass og heróín voru einu efnin sem notuð voru til fíkniefnaneyslu: „Í tengslum við hass og heróín voru yfirleitt framin léttvæg brot, en um leið og amfetamínið kom jókst ofbeldið. Það sama gerðist hér á landi,“ segir Guðmundur.
Sölukeðja þeirra sem selja fíkniefni getur verið ansi löng og efnið borist milli manna áður en það kemst í hendur neytenda. Í höndum allra þessara milliða safnast saman skuldir og er sá sem er fyrir neðan hvern einstakling í keðjunni ábyrgur fyrir greiðslu til þess sem seldi honum. Af þessu getur mikið vandamál skapast, því það þarf ekki nema einn aðila til að rjúfa keðjuna þannig að margir aðilar eru farnir að skulda. Og innheimtuaðgerðirnar geta því orðið vægðarlausar. Guðmundur segir að Lögreglunni í Keflavík berist upplýsingar um ofbeldismál, en eins og áður segir hefur engin kæra borist af því tilefni: „Við fáum upplýsingar um svona mál en getum ósköp lítið gert í þeim því þau berast ekki með formlegum hætti inn til okkar. Ef þetta er að gerast hér og þessar sögur eiga við rök að styðjast finnst okkur mjög sárt að þurfa að horfa upp á það. Við erum að skoða eina sögu hér í Reykjanesbæ, en þar er um að ræða nokkur hundruð þúsund króna fíkniefnaskuld. Við vitum þó að það verður aldrei kært í því máli þannig að hendur okkar eru bundnar.“
Guðmundur segir að foreldrar hafi hringt til hans og spurt ráða því barnið þeirra skuldi fíkniefnasölum: „Við höfum fengið slíkar upphringingar frá foreldrum þar sem þau segja að barn þeirra skuldi peninga. Foreldrarnir hafa verið að leita ráða hjá okkur, en í öllum tilfellum biðjum við foreldra um að greiða ekki skuldina. Um daginn hringdi í mig móðir drengs sem er í meðferð og hún sagði mér að einhver maður væri að hringja í hana út af fíkniefnaskuld sonar hennar. Þessi móðir spurði mig hvort hún ætti að borga. Lögreglan hefur lagt þá línu að ráðleggja fólki í svona málum að kæra málið og greiða ekki skuldina. Lögreglan gerir sér hinsvegar grein fyrir því að hér er ekki um endanlega lausn að ræða. Í því dæmi sem ég nefndi áðan þá verður mjög erfitt fyrir drenginn að koma út úr meðferðinni með fíkniefnaskuld á bakinu og hann þarf að greiða hana til að lenda ekki í vandræðum. Við skiljum þau sjónarmið foreldra að greiða skuldirnar til að losa barnið úr vandræðum,“ segir Guðmundur en bætir við: „Þá er komið upp annað vandamál og það er að ef foreldrarnir greiða skuldina, þá hugsar fíkniefnasalinn með sér að það sé í lagi að lána þessum dreng áfram og hann fer að bjóða drengnum efni. Það segir sig sjálft að þetta er mjög hættulegt fyrir drenginn sem er nýkominn úr meðferð og hugsanlegt að hann hlaði upp skuldum á nýjan leik, sem svo þarf að borga.“
Lögreglan í Keflavík hefur rætt mikið um það hvernig hægt sé að taka á málum sem tengjast innheimtu fíkniefnaskulda: „Ef allir myndu taka sig saman og fara eftir ákveðinni línu þar sem lögreglan væri með í myndinni þá held ég að það sé hægt að gera eitthvað í svona málum. Fólk verður að átta sig á því að það er heilmikið sem lögreglan getur gert. Ég hef oft heyrt raddir um það að foreldrar þori ekki að láta lögreglu vita ef barn þeirra er í fíkniefnavanda, því það haldi að lögreglan bíði með handjárnin og læsi barnið inni. Að sjálfsögðu er þetta ekki svona. Lögreglan reynir að aðstoða foreldra og unglinga sem lenda í fíkniefnaneyslu.“
Það er erfitt að átta sig á umfangi ofbeldismála tengdum fíkniefnum hér á Suðurnesjum en Guðmundur segir að ef ástandið sé jafn gott og kærurnar gefi tilefni til, þá séu Suðurnesjamenn í góðum málum: „En ef að fólk er svona hrætt við að láta lögreglu vita af ótta við hefndaraðgerðir, þá erum við í mjög vondum málum,“ segir Guðmundur að lokum.
Símsvari lögreglunnar
Íbúar Suðurnesja geta sett sig í samband við Lögregluna í Keflavík með því að hringja í símsvara og lesa inn skilaboð og mun lögreglan í framhaldi hafa samband við viðkomandi. Einnig getur fólk lesið inn nafnlausar ábendingar. Símanúmer símsvarans er: 420-2456.
Guðmundur Baldursson fíkniefnalögreglumaður hjá Lögreglunni í Keflavík hefur starfað við rannsókn fíkniefnamála frá árinu 1986, en hann kom frá fíkniefnadeild Lögreglunnar í Reykjavík fyrir um einu ári. Guðmundur segir að lögreglumenn í Keflavík heyri mikið af sögum um ofbeldi í fíkniefnaheiminu, en hann segir að oft sé líklega um mismunandi útfærslur af sömu sögunni að ræða:
„Það er ekkert leyndarmál að við heyrum mikið af svona sögusögnum. Við teljum alveg fulla ástæðu til að taka þær alvarlega og við höfum okkar ástæður fyrir því að halda að þetta sé að gerast hér eins og annarsstaðar á landinu. Hinsvegar höfum við ekkert áþreifanlegt dæmi um það að svona hlutir hafi gerst því það hefur engin kæra borist út af fíkniefnatengdu ofbeldi. Við höfum til dæmis heyrt mismunandi útgáfur af borvélasögunni sem mikið hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og sögur af nauðgunum tengdum handrukkurum. Við höfum engar órækar sannanir fyrir því að svona hlutir hafi átt sér stað,“ segir Guðmundur. Í tengslum við sögusagnir af þessu tagi hefur oft komið upp sú umræða hvort þolendur slíks ofbeldis óttist hefndaraðgerðir af hálfu handrukkarana ef það kærir atburðinn til lögreglu. Guðmundur segir að slíkt sé vissulega þekkt: „Það er alveg ljóst að fólk er hrætt við þessi mál, en hugsanlega er fólk hrætt við hefndaraðgerðir handrukkaranna eða aðgerðir lögreglu og það heldur að handrukkararnir muni hefna sín ef það gefur upplýsingar um verknað eða hótun.“
Til að átta sig á þróun fíkniefnaneyslu á Íslandi er nauðsynlegt að líta á sögulegar staðreyndir og skoða hvernig neyslan hefur þróast. Guðmundur segir að fíkniefnaneyslu hafi fyrst orðið vart á Íslandi fyrir um 40 árum síðan: „Fyrir um 40 árum fóru að myndast hér á Íslandi litlar hassgrúppur og þar voru á ferðinni vinir og kunningjar sem deildu með sér efnum. Á þessum tíma var sölumennska fíkniefna lítt þekkt og vinir deildu með sér efnum. Það lá ekkert fyrir um það hver skuldaði hverjum, enda var það ekki aðalmálið. Á hippatímabilinu voru allir vinir og deildu efnunum.“ Guðmundur segir að ástandið hafi verið fremur „rólegt“ framundir 1990: „Í tengslum við hrun Sovétríkjanna opnaðist gríðarlegt flæði á amfetamíni til Vesturlanda og það kemur á markaðinn mjög ódýrt og sterkt efni. Efnið barst til Íslands og varð strax að vandamáli, en það var það sterkt að það var hægt að fjórfalda efnið áður en það var selt til neytenda. Við þetta verður algjör bylting á íslenska fíkniefnamarkaðnum sem hafði áður verið tiltölulega lokaður og svaraði í rauninni aldrei eftirspurn, því nóg var oftast til af hassi en það voru mest lokaðar klíkur sem voru að reykja hassið. Þegar þetta mikla magn af amfetamíni kemur til landsins er strax farið að markaðssetja efnið og framboðið á efninu er oft meira en eftirspurnin. Við þetta verður fíkniefnamarkaðurinn ópersónulegri og í kjölfarið hefst svo mjög skipulögð markaðssetning á efninu og markvisst er reynt að selja hverjum sem er efni.“
Guðmundur segir að á þessum tíma hafi efnið verið nokkuð dýrt og að neytendur hafi verið fljótir að koma sér í miklar skuldir: „Það græddu allir í keðjunni en sökum þess hve efnið var dýrt voru menn fljótir að steypa sér í miklar skuldir. Annað sem breyttist með tilkomu efnisins var að ofbeldi jókst því amfetamín er örvandi efni og hefur tilhneigingu til að auka verulega á ofbeldishneigð einstaklinga sem neyta efnisins. Það sem einkennir neyslu efnisins er tilefnislaust ofbeldi og er algengt að neytendur ráðist á dyraverði, lögreglumenn og aðra í kringum sig sem þeir telja eitthvað ögra sér.“
Í kringum 1990 starfaði Guðmundur með fíkniefnalögreglunni í Kaupmannahöfn og sögðu starfsfélagar hans þar að þar hafi skapast ákveðið jafnvægi á markaðnum þegar hass og heróín voru einu efnin sem notuð voru til fíkniefnaneyslu: „Í tengslum við hass og heróín voru yfirleitt framin léttvæg brot, en um leið og amfetamínið kom jókst ofbeldið. Það sama gerðist hér á landi,“ segir Guðmundur.
Sölukeðja þeirra sem selja fíkniefni getur verið ansi löng og efnið borist milli manna áður en það kemst í hendur neytenda. Í höndum allra þessara milliða safnast saman skuldir og er sá sem er fyrir neðan hvern einstakling í keðjunni ábyrgur fyrir greiðslu til þess sem seldi honum. Af þessu getur mikið vandamál skapast, því það þarf ekki nema einn aðila til að rjúfa keðjuna þannig að margir aðilar eru farnir að skulda. Og innheimtuaðgerðirnar geta því orðið vægðarlausar. Guðmundur segir að Lögreglunni í Keflavík berist upplýsingar um ofbeldismál, en eins og áður segir hefur engin kæra borist af því tilefni: „Við fáum upplýsingar um svona mál en getum ósköp lítið gert í þeim því þau berast ekki með formlegum hætti inn til okkar. Ef þetta er að gerast hér og þessar sögur eiga við rök að styðjast finnst okkur mjög sárt að þurfa að horfa upp á það. Við erum að skoða eina sögu hér í Reykjanesbæ, en þar er um að ræða nokkur hundruð þúsund króna fíkniefnaskuld. Við vitum þó að það verður aldrei kært í því máli þannig að hendur okkar eru bundnar.“
Guðmundur segir að foreldrar hafi hringt til hans og spurt ráða því barnið þeirra skuldi fíkniefnasölum: „Við höfum fengið slíkar upphringingar frá foreldrum þar sem þau segja að barn þeirra skuldi peninga. Foreldrarnir hafa verið að leita ráða hjá okkur, en í öllum tilfellum biðjum við foreldra um að greiða ekki skuldina. Um daginn hringdi í mig móðir drengs sem er í meðferð og hún sagði mér að einhver maður væri að hringja í hana út af fíkniefnaskuld sonar hennar. Þessi móðir spurði mig hvort hún ætti að borga. Lögreglan hefur lagt þá línu að ráðleggja fólki í svona málum að kæra málið og greiða ekki skuldina. Lögreglan gerir sér hinsvegar grein fyrir því að hér er ekki um endanlega lausn að ræða. Í því dæmi sem ég nefndi áðan þá verður mjög erfitt fyrir drenginn að koma út úr meðferðinni með fíkniefnaskuld á bakinu og hann þarf að greiða hana til að lenda ekki í vandræðum. Við skiljum þau sjónarmið foreldra að greiða skuldirnar til að losa barnið úr vandræðum,“ segir Guðmundur en bætir við: „Þá er komið upp annað vandamál og það er að ef foreldrarnir greiða skuldina, þá hugsar fíkniefnasalinn með sér að það sé í lagi að lána þessum dreng áfram og hann fer að bjóða drengnum efni. Það segir sig sjálft að þetta er mjög hættulegt fyrir drenginn sem er nýkominn úr meðferð og hugsanlegt að hann hlaði upp skuldum á nýjan leik, sem svo þarf að borga.“
Lögreglan í Keflavík hefur rætt mikið um það hvernig hægt sé að taka á málum sem tengjast innheimtu fíkniefnaskulda: „Ef allir myndu taka sig saman og fara eftir ákveðinni línu þar sem lögreglan væri með í myndinni þá held ég að það sé hægt að gera eitthvað í svona málum. Fólk verður að átta sig á því að það er heilmikið sem lögreglan getur gert. Ég hef oft heyrt raddir um það að foreldrar þori ekki að láta lögreglu vita ef barn þeirra er í fíkniefnavanda, því það haldi að lögreglan bíði með handjárnin og læsi barnið inni. Að sjálfsögðu er þetta ekki svona. Lögreglan reynir að aðstoða foreldra og unglinga sem lenda í fíkniefnaneyslu.“
Það er erfitt að átta sig á umfangi ofbeldismála tengdum fíkniefnum hér á Suðurnesjum en Guðmundur segir að ef ástandið sé jafn gott og kærurnar gefi tilefni til, þá séu Suðurnesjamenn í góðum málum: „En ef að fólk er svona hrætt við að láta lögreglu vita af ótta við hefndaraðgerðir, þá erum við í mjög vondum málum,“ segir Guðmundur að lokum.
Símsvari lögreglunnar
Íbúar Suðurnesja geta sett sig í samband við Lögregluna í Keflavík með því að hringja í símsvara og lesa inn skilaboð og mun lögreglan í framhaldi hafa samband við viðkomandi. Einnig getur fólk lesið inn nafnlausar ábendingar. Símanúmer símsvarans er: 420-2456.