HESTUR FÆLDIST Í SKRÚÐGÖNGU
Hestur fældist og féll við með þeim afleiðingum að knapi varð undir hestinum í þrettándaskrúðgöngu í Keflavík í gærkvöldi. Knapinn var fluttur á sjúkrahúsið í Keflavík en fékk að fara heim að lokinni skoðun. Að sögn lögreglu hlaut maðurinn mar á baki, en slasaðist ekki alvarlega.Sjúkrabifreið sem sótti hinn slasaða átti erfitt með að komast til og frá slysstað vegna mannfjölda. Engin önnur óhöpp urðu í tengslum við þrettándagleðina svo vitað sé og fór hún vel fram að sögn lögreglu.Áætlað er að hátt í 3000 manns hafi tekið þátt í hátíðarhöldunum sem fram fóru við Iðavelli í Keflavík í gærkvöldi. Dagskráin var með ágætum, söngur, hljóðfæraspil, brenna, púkar og síðan glæsileg flugeldasýning í boði Reykjanesbæjar þar sem trompið var 16” tívolíbomba sem var sprengd í lok sýningarinnar.