Hestamenn í Grindavík fá betri aðstöðu
Bið grindvískra hestamanna eftir betri aðstöðu gæti farið að styttast ef óskir bæjarverkfræðings Grindavíkurbæjar ná fram að ganga. Hann hefur óskað eftir því við Skipulags- og bygginganefnd að ráðist verði nú þegar í gerð nýs deiliskipulags fyrir framtíðar hesthúsabyggð sem staðsett yrði ofan væntanlegs Suðurstrandavegar.
Þá óskar bæjarverkfræðingur jafnframt eftir því að samhliða verði ráðist í tilheyrandi breytingar á aðalskipulagi Grindavíkur vegna þróunar íbúabyggðar til austurs á næstu árum.
Samkvæmt framlögðu erindi bæjarverkfræðings er það aðstöðuleysi hestamanna og skipulagsvandamál í og umhverfis núverandi hverfi, sem kalla á nýtt deiliskipulag og breytingar á aðalskipulagi.
Núverandi hesthúsahverfi og og hæsnabú myndi þá leggjast niður í núverandi mynd og svæðið skipulagt undir íbúabyggð. Í nýrri deiliskipulagstillögu yrði gert ráð fyrir reiðhöll og þeim hesthúsum sem fyrirhugað var að reisa austan núverandi hesthúsabyggðar. Einnig keppnisvelli, beitarhólfum til uppgræðslu, hringgerði, félagsaðstöðu og fjölbreyttum stærðum af hesthúsum.
Skipulags- og bygginganefnd hefur tekið jákvætt í erindi bæjarverkfræðings og vill skoða það nánar.
Mynd: Hestafólk í Grindavík kom ríðandi til kjörfundar í sveitarstjórnakosningunum í vor og minntu frambjóðendur á það aðstöðuleysi sem háð hefur hestaíþróttinni þar.
VF-mynd:elg