Hert öryggisgæsla og samræmdar öryggisreglur í Leifsstöð
Flugvallarstjórinn og Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hafa tilkynnt að í kjölfar atburðanna sem áttu sér stað í Bretlandi í síðustu viku verði öryggisgæsla hert. Í tilkynningunni kemur fram að sérstakar aðgerðir undanfarna daga hafi beinst að farþegum til Bretlands og Bandaríkjanna en muni nú eiga við alla flugfarþega þangað til að annað verði ákveðið.
Meðal breytinga sem farþegar verða varir við eru þær að ekki verður lengur leyfilegt að hafa meðferðis vökva í handfarangri, s.s. drykki eða snyrtivörur í fljótandi formi til dæmis en leyfilegt er að taka með sér annan handfarangur. Allir farþegar verða að fara úr skóm og þeir gegnumlýstir í vopnaleit og farþegar á leið til Bandaríkjanna, sem kaupa vökva í sölubúðum flugstöðvarinnar, fá hann afhentan við brottfararhlið. Einnig munu farþegar á leið til Bandaríkjanna þurfa að gangast undir aukið eftirlit og sagði Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, að farþegar geti átt von á því að lenda í slembiúrtaki við brottfararhlið þar sem leitað verður gaumgæfilega á þeim.
Óvíst hve lengi hertar öryggisaðgerðir vara
Aðspurður hvort hertar öryggisaðgerðir fælu það í sér að fleiri vopnaðir lögreglumenn yrðu á flugvellinum sagði Jóhann svo vera. "Þegar viðbúnaðarstig er aukið þá er allajafna þeim lögreglumönnum sem bera vopn fjölgað, en það er ekki það að fleiri lögreglumenn séu til staðar. Það er fullkomin óvissa um hversu lengi þessar hertu reglur verða við lýði. En eins og maður hefur sagt áður hefur svona rót í öryggisumhverfinu jafnan þýtt hertar reglur en með hvaða hætti verður framtíðin að leiða í ljós." Vildi Jóhann bæta því við að farþegar hefðu sýnt mikinn skilning.
Icelandair eykur hámarksþyngd tímabundið
Í gær sendi Icelandair frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að flugfélagið hafi tekið þá ákvörðun að auka hámarksþyngd farangurs úr 20 kg í 23 kg og greiða þarf 750 kr. fyrir hvert aukakílógramm en það var áður að minnsta kosti 1.100 krónur. Þetta er gert til að hvetja farþega til að ferðast með sem minnstan handfarangur. Að sögn Gunnars Más Sigurfinnssonar, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Icelandair er þetta tímabundin ráðstöfun.