Herstöðin: Íslendingar gæta áfram glæpavettvangs
Íslendingar þurfa áfram að gæta glæpavettvangs á Keflavíkurflugvelli eftir að Varnarliðið er farið. Nú standa yfir réttarhöld, sem hófust um miðjan júlí, yfir ungum hermanni sem ákærður er fyrir að hafa myrt hina tvítugu Ashley Turner á Keflavíkurflugvelli í fyrra. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta er vettvangur morðsins ennþá innsiglaður og merktur sem glæpavettvangur. Svo verður áfram. Heimildir Víkurfrétta herma að íslensk lögregla muni gæta vettvangsins þar til dómur hefur fallið í málinu ytra.
Í íslenskum fjölmiðlum var fjallað um morðið um mitt sumar. Þar sagði: Ashley Turner lést af völdum höfuðáverka og stungusárs á hálsi. Hún var tvítug að aldri og starfaði sem flugliði hjá þyrlubjörgunarsveitinni á Keflavíkurflugvelli.
Ashley fannst látin í ágúst í fyrra í sameiginlegum svefnskála hennar og Calvins Hill, sem var samstarfsmaður hennar. Hill, sem er rúmlega tvítugur flugliði, er ákærður fyrir að hafa myrt Turner, en til stóð að hún bæri vitni gegn Hill fyrir herrétti í þjófnaðarmáli.
Réttað er yfir Hill fyrir herrétti í Bolling herstöðinni í Washington í Bandaríkjunum. Ef Hill verður fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér dauðarefsingu eða lífstíðarfangelsi samkvæmt herlögum.
Engin vitni voru að morðinu og morðvopnið hefur ekki fundist. Helsta sönnunargagnið gegn Hill er blóðdropi úr Turner sem fannst á reim á íþróttaskóm Hills. Verjendur Hills benda hins vegar á fjarvistarsönnun hans, en hann eyddi kvöldinu með íslenskri kærustu sinni að horfa á myndina Top Gun. Að sögn hennar yfirgaf hann herbergið aðeins tvisvar og í stuttan tíma.
Mynd: Byggingin þar sem voðaverkið átti sér stað fyrir rétt rúmu ári.