Herminjar brunnu í Reykjanesbæ
Kveikt var í gömlum herbragga á verktakasvæðinu að Ásbrú í Reykjanesbæ nú undir kvöld. Þó nokkur eldur var í bragganum þegar slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kom á staðinn. Misvísandi upplýsingar bárust slökkviliði og því fór það fyrst á rangan stað í útkallið en tilkynnt var um eld við Hafnaveg.
Ætla má að þó nokkur menningarverðmæti hafi brunnið í eldsvoðanum nú síðdegis en bragginn sem eldurinn kom upp í er sá síðasti sinnar tegundar á gamla varnarliðssvæðinu og er frá fyrstu árum hersetunnar á Íslandi. Var jafnvel horft til þess að bragginn yrði hluti af herminjasafni í Reykjanesbæ.
Búið var að brjóta allar rúður í bragganum og sparka upp hurðum en það gerðist eftir að gamla herstöðin var opnuð fyrir almennri umferð. Þó hafði Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar látið reisa háa og mikla girðingu umhverfis braggann og næsta nágrenni, þar sem menguðum jarðvegi hafði verið mokað upp og komið til viðeinandi eyðingar.
Umfjöllun um braggann árið 2008.
Meðfylgjandi myndir frá slökkvistarfinu tók Hilmar Bragi nú undir kvöld.