Hermenn hindra ljósmyndara Víkurfrétta í störfum sínum
Ljósmyndari Víkurfrétta var í dag umkringdur af hermönnum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli þar sem hann var við störf sín fyrir utan hliðið að Patterson flugvelli. Hermenn og herlögreglumenn gerðu athugasemdir við störf ljósmyndarans og meinuðu honum að taka myndir af flugvellinum. Hermennirnir kröfðust þess að fá stafrænt myndakort úr myndavélinni afhent.
„Þeir stoppuðu mig og báðu mig að eyða myndunum. Ég tók það ekki í mál og þá fóru þeir að hringja í hina og þessa til að fá fyrirmæli,“ segir Atli Már Gylfason ljósmyndari Víkurfrétta en alls voru sjö lögreglubílar kallaðir á staðinn. „Mér leið eins og ég væri einhver stórglæpamaður því þarna voru fjölmargir hermenn sem stóðu í kringum mig.“
Atli segir að hann hafi verið krafinn um kortið úr myndavélinni en að hann hafi staðfastlega neitað að afhenda það. „Ég sagði þeim að ég myndi aldrei afhenda þeim kortið – fyrr þyrftu þeir að handtaka mig,“ segir Atli en hann var stöðvaður í tæpa klukkustund vegna málsins. Að lokum var honum leyft að fara eftir að hermennirnir höfðu ráðfært sig við almannatengslaskrifstofu varnarliðsins.
Þetta er í þriðja sinn á stuttum tíma sem hermenn/herlögreglumenn af Keflavíkurflugvelli gera athugasemdir við störf ljósmyndara Víkurfrétta utan girðingar varnarliðsins. Í fyrsta skiptið var ljósmyndara blaðsins meinað að mynda við kirkjugarð Keflavíkur við Garðveg og fyrir um tveimur vikum var gerð athugasemd við ljósmyndara blaðsins þar sem hann var við fréttaljósmyndun við Grænás.
Róbert Marshall formaður Blaðamannafélags Íslands hefur fordæmt vinnubrögð hermanna varnarliðsins vegna afskipta þeirra af ljósmyndurum Víkurfrétta. Róbert sagði þegar ljósmyndari blaðsins var stöðvaður við Grænás fyrir um tveimur vikum að viðbrögð hermannanna lýstu mikilli vankunnáttu á réttindum blaðamanna á Íslandi. „Auðvitað hefur ljósmyndari Víkurfrétta allan rétt til að ljósmynda það sem honum sýnist og beina sinni myndavél að bandarískum hermönnum jafnt sem herstöðinni. Ég hef ekki trú á öðru en að þarna hafi verið á ferðinni hermaður sem oftúlkar valdsvið sitt. Blaðamannafélagið mun gera formlega athugasemd við herinn og íslenska utanríkisráðuneytið komi í ljós að hermenn hagi sér með þessum hætti gagnvart íslenskum blaðamönnum að undirlagi yfirmanna sinna.“
Páll Ketilsson ritstjóri Víkurfrétta segir að það sé ekki hægt að starfa við það að ljósmyndarar blaðsins eigi það á hættu að vopnaðir hermenn mæti þegar þeir sinna störfum sínum fyrir utan girðingu varnarsvæðisins. „Við munum í framhaldi þessara síðustu atburða senda formlegt erindi til Blaðamannafélags Íslands þar sem óskað verður eftir að þessu mál verði tekin til skoðunar.“
Myndirnar: Hermenn og herlögreglumenn meinuðu ljósmyndara Víkurfrétta að taka myndir af Patterson flugvelli í dag. VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.