Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hermaðurinn frá Keflavík, Steinunn Truesdale, í Sjálfstæðu fólki
Laugardagur 5. febrúar 2005 kl. 12:42

Hermaðurinn frá Keflavík, Steinunn Truesdale, í Sjálfstæðu fólki

„Ég hafði heyrt af Steinunni og langaði til þess að hitta hana og um leið sýna Íslendingum stríðið í Írak, sérstaklega þar sem við erum í hópi hinna viljugu þjóða," sagði Jón Ársæll Þórðarson í samtali við Víkurfréttir en Jón er nýlega kominn heim frá Írak þar sem hann ræddi við Steinunni Snædal Kjartansdóttur Truesdale.

Jón Ársæll hélt til Íraks ásamt Inga R. Ingasyni myndatökumanni til þess að ræða við Steinunni. Kaflaskil urðu í lífi Steinunnar þegar hún bjó á Suðurnesjum en þá  kynntist hún bandaríkjamanni sem var í hernum og fluttist með honum erlendis. Eitt leiddi af öðru og Steinunn skráði sig í herinn og þjónar nú í Írak.

Það er ekki er gengið inn í Írak um þessar mundir eins og ekkert sé en það tók Jón Ársæl dágóðan tíma að fá að fara inn í landið. „Ég er búinn að heygja mitt eigið stríð til þess að komast til Íraks en samningaviðræður við bandarísk stjórnvöld hófust í júní á síðasta ári," sagði Jón Ársæll. „Þegar vera okkar í Írak var loks staðfest vorum við fluttir með herþyrlum út í eyðimörkina og til Al Asad þar sem Steinunn þjónar en hún er liðþjálfi í bandaríska landgönguliðinu."

Kjartan faðir Steinunnar lék á tíma með Keflavík í knattspyrnu ásamt því að vera lögregluþjónn hér í Keflavík. Móðir Steinunnar er myndlistarkonan Ríkey og hálfsystir hennar er Ruth Reginalds.

Jón Ársæll stjórnar þættinum Sjálfstætt fólk á Stöð 2 og verður þátturinn með Steinunni sýndur sunnudaginn 6. febrúar eftir fréttir. Síðari helmingur viðtalsins við Steinunni verður svo sýndur sunnudaginn 13. febrúar.

Texti: Jón Björn Ólafsson / Myndir: Ingi R. Ingason

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024