Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Herinn tók land í leyfisleysi
Þriðjudagur 3. október 2006 kl. 14:27

Herinn tók land í leyfisleysi

Bandaríski herinn tók land í leyfisleysi við sorphaugana á Stafnesi þegar hann fór með girðingu lengra en honum bar inn á land ábúenda á Austur-Stafnesi. Um er að ræða þó nokkra spildu sem landeigendur fengu ekki til baka en málið hefur verið að velkjast í kerfinu í u.þ.b. áratug. Þessi landtaka var til viðbótar öllu því landi sem tekið hafði verið eignarnámi. Landeigendur á Stafnesi hafa nú krafist þess að fá til baka allt það land sem tekið var eignarnámi undir herinn á sínum tíma.

Leifur Ölver Guðjónsson, landeigandi í Austur-Stafnesi segir að á sínum tíma hafi honum tekist að stöðva vinnu við girðinguna en í ljós hafi komið að gögn hafi vantað til að stafesta eignarhald málsaðila.  Þetta var fyrir um áratug síðan. „Síðan þá hefur verið staðið í stappi  en ekki tekist að klára málið í allan þennan tíma. Það er enn fyrir dómstólum en afar seint og illa hefur gengið að fá fulltrúa hersins til að svara bréfum og erindagjörðum,“ sagði Leifur í samtali við Víkurfréttir.

Að sögn Leifs fengu landeigendur aldrei að njóta þess umgengisréttar sem þeir áttu að hafa á landinu, vegna þess yfirgangs sem þeir máttu þola frá Hernum.
„Það mátti hvergi orðið drepa niður fæti hér í kring án þess að þeir væru komnir gráir fyrir járnum. Þetta versnaði um allan helming eftir að hryðuverkaógnin jókst.
Einn af okkur fór einu sinnu niður í fjöru með riffil til að skjóta varg. Þrátt fyrir að við ættum að hafa umráðarétt yfir fjörunni, dreif að hersveit með alvæpni. Maðurinn var handjárnaður með byssukjaftana yfir sér og færður á stöð. Hann var með byssuleyfi og var þarna í fullum rétti,” sagði Leifur.

Það hefur því gengið á ýmsu í sambýli við Herinn og Leifur segir að menn hafi t.d. ekki getað nýtt rekann. Þá hafi ruslið úr haugnum stundum fokið langar leiðir og verið fólki til ama. Menguðum jarðvegi af Nikkelsvæðinu var ekið út á Stafnes og eiturefni urðuð þar einnig. Nú vilja landeigendur að svæðið verði hreinsað og því skilað aftur til réttra eigenda, sem hafa aðeins haft lítið brot til umráða af upprunalegu landi Stafnesbænda.

Mynd: Leifur Ölver Guðjónsson í Austur-Stafnesi. Í baksýn sést til svæðisins sem Herinn tók til umráða undir haugana.


VF-mynd: Ellert Grétarsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024