Herinn tekur slökkvibíla og snjótæki
Brotthvarf Varnarliðsins á Miðnesheiði færist sífellt nær og nú er svo komið að innan tíu daga verður 55 ára stormasamri sögu bandaríska hersins hér á landi lokið. Viðræður stjórnvalda um viðskilnaðinn hafa staðið yfir síðan í lok mars og þó mörgum hafi þær þótt dragast fram úr hófi hefur Geir H. Haarde, forsætisráðherra, boðað að samkomulag milli Íslands og Bandaríkjanna um viðskilnað muni liggja fyrir á allra næstu dögum, öðru hvoru megin við helgina. Víkurfréttir hafa heimildir fyrir því að samningur liggi þegar fyrir og hafi gert það um nokkurt skeið, einungis þurfi að staðfesta hann með undirritun.
Heimildarmenn Víkurfrétta, sem vildu ekki koma fram undir nafni, segja að samkvæmt samkomulaginu skili bandarísk stjórnvöld öllu landsvæði og byggingum sem hafa verið innan marka varnarsvæðis að undanskildum byggingum fjarskiptamiðstöðvarinnar við Grindavík sem mun áfram vera rekin af Bandaríkjamönnum. Ísland mun þó áfram starfa með Bandaríkjunum á vettvangi NATO og mun veita aðstöðu á þeim forsendum ef þess gerist þörf.
HVAÐ VERÐUR UM TÆKJABÚNAÐ Á VELLINUM?
Eitt stærsta málið sem brunnið hefur á þeim sem fylgst hafa með viðræðunum er hvað muni verða um tæki og tól á varnarsvæðinu sem eru í eigu Bandaríkjahers en gegna mikilvægu hlutverki fyrir Íslendinga, sérstaklega varðandi rekstur alþjóðaflugvallarins.
Snjóruðningstæki, tækjabúnaður Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli og ýmiskonar fjarskiptabúnaður er meðal þess sem er nauðsynlegt til að rekstur flugvallarins fari ekki í uppnám.
LEIGUGJALDIÐ ER ÓVERULEGT
Heimildir Víkurfrétta staðhæfa að allur nauðsynlegur búnaður verði áfram hér á landi fyrst um sinn. Íslensk stjórnvöld munu samkvæmt því leigja búnaðinn þar til þau hafa sjálf komið sér upp slíku og er talið að tíminn sem um ræðir sé um það bil ár. Leigugjaldið sé óverulegt miðað við mikilvægi og verðmæti búnaðarins. Ástæða þess að íslensk stjórnvöld festa ekki kaup á þeim búnaði sem þegar er hér á landi er að þar sem hann er í eigu hersins er um að ræða „hergögn“ sem bandarísk lög banna að séu látin af hendi.
HVAÐ EF VELFERÐ FÓLKS STAFAR HÆTTA AF MENGUN?
Mikil umræða hefur einnig verið um mögulega mengun sem gæti verið í jarðvegi á varnarsvæðinu og hefur komið fram í fjölmiðlum að mikla fjármuni gæti þurft til að hreinsa svæðið. Í Fréttablaðinu sl. þriðjudag kom fram að íslensk stjórnvöld höfnuðu því að gerð yrði óháð rannsókn á mengun á svæðinu áður en farið var út í viðræður um viðskilnað hersins.
Heimildir Víkurfrétta herma að Bandaríkjamenn muni leggja til ákveðna upphæð við yfirfærslu svæðisins, en muni ekki sjálfir sjá um jarðvegshreinsanir eða annað slíkt. Sá varnagli sé hins vegar sleginn að ef í ljós kemur á næstu misserum að velferð fólks stafi hætta af mengun vegna losunar sem átti sér stað fyrir undirritun samningsins munu stjórnvöld landanna funda til að komast að niðurstöðu um hugsanlegar bætur eða aðrar aðgerðir.
ÓTÍMABÆRT AÐ RÁÐSTAFA FASTEIGNUM
Þrátt fyrir að kveðjustundin nálgist óðfluga eru enn fjölmörg mál sem bíða lausnar. Afdrif íbúðarhúsnæðisins á Vellinum hafa brunnið á íbúum Suðurnesja, en engin ákvörðun liggur fyrir. Enda var beðið eftir niðurstöðum úr samningaviðræðunum þar sem ótímabært er að ráðstafa eignunum áður en formlega hefur verið gengið frá yfirfærslu þeirra.
Þá hafa þeir elstu í hópi íslenskra starfsmanna Varnarliðsins krafist þess að við þá séu gerðir starfslokasamningar og auk þeirra eru fleiri dæmi um starfsmenn sem hafa þegar hafið málarekstur til að sækja rétt sinn gagnvart sínum fyrrum vinnuveitendum.
STUND SANNLEIKANS NÁLGAST
Hvað sem verður er ljóst að stund sannleikans um framtíð svæðisins nálgast. Nýr kafli er að hefjast í atvinnu- og menningarlífi Suðurnesja, en það gæti liðið nokkur tími þar til íbúar sjá hjólin snúast að fullu því nauðsynleg hreinsun vegna mengunar og niðurrif ónýtra bygginga er geysimikið verkefni.
Kaninn er farinn úr veislunni, en uppvaskið er eftir.
Texti: Þorgils Jónsson
Frétt um yfirtöku mannvirkja og tækja frá því í maí 2006