Herferð gagn netníði hafin
- Netníð gegn konum og stelpum vaxandi vandamál
UN Women á Íslandi hleypti í gær af stokkunum nýrri HeForShe – herferð undir slagorðinu Ekki hata. Markmið herferðarinnar er að hvetja fólk til þess að skrá sig á www.heforshe.is og þar með skuldbinda sig til að berjast gegn netníði sem og að tileinka sér ábyrga nethegðun, beita hvorki hatursfullri orðræðu né hóta ofbeldi á netinu.
Burðarefni herferðarinnar er myndband sem sýnir hvernig gróft kynbundið ofbeldi í garð kvenna og stelpna grasserar á spjallþráðum og kommentakerfum. Listamaðurinn Kött Grá Pje fór í rannsóknarleiðangur um netheima og safnaði saman grófum og rætnum athugasemdum ungs fólks sem á vegi hans urðu. Hann leitaði aðallega fanga á Kiwi (ASKFM), Youtube og Instagram. Athugasemdirnar sem blöstu við honum eru grófar og sýna vel það grimma og dulda kynbundna ofbeldi sem fram fer á netinu.
Úr athugasemdunum samdi hann ljóð sem flutt er í myndbandinu. Myndbandið varpar ljósi á það rof sem myndast milli samskipta fólks í raunheimum og á internetinu, líkt og að aðrar samskiptareglur og „netikettur“ viðgangist á því síðarnefnda.
Í tilkynningu frá UN Women segir að netníð gegn konum og stelpum sé vaxandi samfélagsvandamál og hafi áhrif á fleiri konur en við gerum okkur grein fyrir. Það er margþætt og á sér ólíkar birtingarmyndir. Herferðin beinir sjónum fyrst og fremst að hatursfullum athugasemdum og hótunum í garð kvenna og stúlkna á netinu, stafrænu kynferðisofbeldi (dreifingu á viðkvæmum og persónulegum upplýsingum eða myndum á netinu án samþykkis þess sem efnið snertir) og eltingum/eftirliti þegar fylgst er með þolandanum meðal annars með aðstoð GPS-tækni.
Þeirri orðræðu, sem sýnd er í myndbandinu er ætlað að ögra og hreyfa við fólki. Öll þau ummæli sem fram koma í myndbandinu eru nú þegar á netinu og öllum aðgengileg. Þess má geta að herferðin var unnin í góðu samstarfi við Landsbankann sem er jafnframt bakhjarl herferðarinnar.
Nánari upplýsingar um átakið má nálgast hér.