Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 31. maí 2001 kl. 15:00

Hér skila allar togaraútgerðir hagnaði

Mér líst vel á færeyska fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er hægt að gera togarana út allt árið og allar togaraútgerðir skila hagnaði. Það er engum fiski hent í sjóinn enda er það allra hagur að aflinn skili sér í land, segir Eyþór Jónsson útgerðarmaður í Færeyjum og fyrrum útgerðarstjóri í Sandgerði í samtali við InterSeafood.com.
Eyþór hefur verið búsettur í Færeyjum frá því í fyrra en þá keypti hann sig inn í útgerð togarans Föstuvarða frá Miðvági sem hann gerir nú út með færeyska útgerðarmanninum Bjarta Mohr. Föstuvarði er rúmlega 305 brúttótonn og er hann á svokölluðum partrollsveiðum með togaranum Hvannhólmi sem Bjarti Mohr gerir út.

Vonlaust að hefja útgerð á Íslandi
Eyþór var lengi útgerðarstjóri togarans Hauks GK og annarra skipa í eigu fjölskyldufyrirtækisins Jóns Erlingssonar hf. í Sandgerði en eftir að hann hætti þar störfum fór hann að svipast um eftir möguleikum til þess að hefja útgerð á eigin vegum.

Ég sá það strax að það var vonlaust að ætla að fara út í útgerð á Íslandi. Ég byrjaði því að leita fyrir mér í Noregi en síðan datt ég niður á þennan möguleika hér í Færeyjum fyrir tilviljun. Ég sló til og sé alls ekki eftir því. Stjórnkerfi fiskveiðanna í Færeyjum er skilvirkt og hér hafa menn góða möguleika til þess að bjarga sér. Brottkast er ekkert vandamál og allur afli kemur að landi. Partogararnir, sem svo eru kallaðir, eru gerðir út samkvæmt sóknardagakerfi en að auki hafa þeir smávægilegan bolfiskkvóta í allra næsta nágrenni eyjanna. Sóknardagakerfið er tvískipt en miðað er við tvær línur. Á milli þessara lína jafngildir hver dagur á sjó einum sóknardegi en utan ytri línunnar fjærst eyjunum er vægið minna. Þar jafngilda þrír dagar á veiðum einum sóknardegi, segir Eyþór en hann segir þetta sóknardagakerfi svo rúmt að hægt sé að halda togurunum að veiðum árið um kring.

Að sögn Eyþórs er nú til umræðu að hleratogararnir, sem eru einir með eitt troll líkt og tíðkast á Íslandi, fái einnig sóknardaga en veiðum þeirra hefur verið stjórnað með kvótum fram að þessu. Ef það nær fram að ganga þá er rætt um að hægt verði að leigja daga á milli þessara tveggja
útgerðarflokka.

Myndin: Eyþór Jónsson útgerðarmaður í Færeyjum á sýningarbás InterSeafood.com á sjávarútvegssýningunni í Runavik í síðustu viku. Mynd/InterSeafood.com: Darri Gunnarsson.

Samvinna færeysku skipstjóranna er eins og gott hjónaband

Algengur vikuafli tveggja lítilla togara í Færeyjum, sem draga saman eitt troll, hefur verið um 100 til 120 tonn eftir vikuna. Aflaverðmætið í hverri veiðiferð hefur verið á bilinu 12 til 13 milljónir íslenskra króna síðustu vikurnar að sögn Eyþórs Jónssonar útgerðarmanns í Færeyjum.

Aflinn hefur aðallega verið þorskur og ýsa en í síðustu veiðiferðum hefur þó ufsaaflinn farið vaxandi, segir Eyþór en hann gerir út togarann Föstuvarða í félagi við Bjarta Mohr eins og fram kemur í annarri frétt hér á fréttavef InterSeafood.com. Föstuvarði og Hvannhólmur draga saman
eitt troll eins og algengt er í Færeyjum og segir Eyþór samvinnu færeysku skipstjóranna vera til fyrirmyndar.
Þetta er eins og gott og ljúft hjónaband og ég hef ekki orðið var við annað en að samvinna skipstjóranna sé eins og best verður á kosið. Sá háttur er hafður á að skipstjórinn á skipinu, sem á trollið í sjónum hverju sinni, ræður holinu.
Sömuleiðis skiptast skipstjórarnir á að ráða hvert ferðinni er heitið hverju sinni. Þetta gengi aldrei upp heima á Íslandi. Þar þykjast allir vera kóngar og allir vilja ráða - alltaf, segir Eyþór en hann segir ávinninginn af partrollveiðunum vera umtalsverðan.

Það er allt sem mælir með þessum veiðum. Olíueyðslan er umtalsvert minni, aflinn er mun meiri og slit á skipi og búnaði er minna en ef eitt skip væri með trollið. Það þarf enga toghlera á þessum veiðum. Það eru notaðar þrjár keðjur til að þyngja trollið í miðjunni og til þess að skvera það til
hliðanna. Fyrst eftir að ég kom hingað var ég með hugmyndir um að beita hefðbundnum íslenskum togaraaðferðum en það kom fljótt í ljós að mun betri árangur fékkst með partrollsveiðunum, segir Eyþór Jónsson.

Birt með góðfúslegu leyfi InterSeafood.com
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024