Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Miðvikudagur 2. október 2002 kl. 15:49

"Hér er mikill kraftur" segir Kristján Pálsson um sjávarútveginn á Suðurnesjum

Töluverð umfjöllun um kvótamál hefur verið í Víkurfréttum síðustu vikna þar sem bent hefur verið á samdrátt í aflaheimildum Suðurnesjamanna. Víkurfréttir leituðu til Kristjáns Pálssonar alþingismanns og báðu hann um að svara nokkrum spurningum um kvótamálin.

Er allur kvótinn af fara frá Suðuresjum eins og verkalýðsforustan segir?
Nei þetta er ekki rétt sé miðað við Suðurnesin í heild. Auðvitað er það alltaf áhyggjuefni þegar útgerðir fara frá einstaka stöðum ef ekkert kemur í staðinn. Tilfærslur á kvóta milli svæða eða jafnvel innan svæða er mikið tilfinningamál og erfitt fyrir þá sem missa atvinnuna að sætta sig við þetta. Sem betur fer þá hefur tekist í flestum tilfellum að finna nýja atvinnu fyrir þetta fólk. Það eru mörg ár síðan að kvótinn fór að mestu úr Keflavík og Njarðvík. Alvarlegasta og nýjasta dæmið er flutningur kvótans frá Sandgerði en þar er verk að vinna að endurheimta hann til baka. Þegar aflaheimildir Suðurnesjamanna eru skoðaðar í heild á 10 ára tímabili eru sveiflurnar ekki svo íkja miklar eða rúmt 1 % stig í mínus. Ef kvótastaða Suðurnesjamanna er skoðuð í einstaka fisktegundum þá hefur hún batnað í þorski um 2% stig, ýsu 1,3% stig og ufsa um 3,1 % stig. Á þessum 10 árum hefur kvóti okkar hins vegar minnkað hlutfallslega í rækju, humri, loðnu og síld. Ef síðustu 5 ár eru skoðuð er útkoman svipuð.Er verkalýðsforustan þá að fara með tóma vitleysu?
Það hefur fluttst kvóti frá Sandgerði svo það er ekki rangt að einhverjar tilfærslur eigi sér stað en nettóstaðan í kvótanum er samt svipuð í heildina fyrir Suðurnesin. Færri störf í sjávarútvegi má miklu frekar rekja til þess að aflaheimildum er safnað á færri báta nú en áður og tæknin í fiskvinnslunni er öll á þann veg að störfum fækkar og svo má ekki gleyma
því að þorskkvótinn hefur minnkað mjög á síðustu árum vegna minnkandi aflaheimilda. Atvinnustigið hefur þrátt fyrir þetta verið hátt í fiskvinnslu á Suðurnesjum og ber að þakka það fiskmörkuðunum. Fiskvinnslan í Suðurnesjum er mjög sérhæfð og byggir á miklu markaðsstarfi og vinnslu á dýra markaði erlendis. Vegna mjög framsækinna framleiðenda á Suðurnesjum þá eru keypt hingað 20 þúsund tonn af fiski árlega frá fiskmörkuðum utan Suðurnesjanna. Mest kemur frá Vesturlandi eða um 8000 tonn, frá Vestfjörðum um 3600 tonn og Suðurlandi 3000 tonn. Til samanburðar þá var úthlutaður þorskkvóti til báta á Suðurnesjum um 20 þúsund tonn á síðasta fiskveiðiári.

Eru fiskmarkaðarnir mikilvægari hér en annarsstaðar á landinu?
Já það má alveg segja það. Það er aðeins höfðuborgarsvæðið sem kaupir álíka mikið og við utan síns svæðis. Markaðirnir eru mjög mikilvægir fyrir sjávarútveginn í heild og ljóst að án þeirra væri nýliðun í fiskvinnslu nánast útilokuð og nýbreytni í markaðsstarfi og framleiðsluþróun allt önnur. Ég lít svo á að fiskmarkaðarnir hafi fleytt okkur inn í nútíma matvælaþróun í fiski eins og t.d. ferskan fisk í flug o.fl. Ég er formaður í stórri nefnd á vegum sjávarútvegsráðherra sem er þessa dagana að skila af sér mikilli skýrlu um stöðu fiskmarkaðann almennt. Í þeirri skýrslu munum við jafnframt leggja fram tillögur um hvernig megi styrkja stöðu fiskmarkaðanna á Íslandi.

Hvaða tillögur eru það?
Ég get ekki upplýst um það strax en það verður reynt að gera þá gagnsærri og öruggari og tryggja betur rétt kaupenda. Eftir ferð til Humbersvæðisins í Englandi sem nefndin fór þá mun íslenskur sjávarútvegur trúlega innan fárra ára lenda í mikilli samkeppni á mörkuðum við eldisþorsk. Stærstu fiskframleiðendur Bretlands hafa fengið frá Norðmönnum áætlanir um að framleiða meira magn í þorskeldi innan 10 ára er þeir veiða af viltum þorski í dag. Það sem skiptir fiskframleiðendur máli er öryggi í afhendingu, gæðum og verðum en það hafa eldiframleiðendur getað tryggt t.d. í eldislaxi. Norðmenn setja milljarða króna í tilraunir í þorskeldi í dag og ljóst að þeir hafa bæði peninga og reynslu í eldi til að geta náð langt á skömmum tíma. Þeir hafa einnig hafið tilraunir með kynbætur og genabreytingar í þorski sem gæti aukið vaxtahraðann mjög og breytt öllum arðsemisforsendum um leið. Við verðum að fylgjast vel með á þessu sviði. Ég hef t.d. talið að við hér á Suðurnesjum búum við kjör aðstæður til þorskeldis með tilliti til sjávarhita, strauma og aðstöðu. Við þurfum þó að skapa skjól með varnargörðum sem kostar auðvita peninga en verður að gerast og gæti unnist um leið og lóðin verður sprengd út fyrir stálpípuverksmiðjuna í Helguvík. Ég hef beðið hafnarstjórann í Hafnarsamlaginu að skoða þetta lauslega.

Þú ert þá bjarsýnn fyrir Suðurnesin?
Ég held að fá svæði á landinu búi við eins góðar aðstæður og við hér. Þrátt fyrir allt er sjávarútvegurinn mjög öflugur á Suðurnesjum. Flugvöllurinn og herinn er eitthvað sem fer ekki annað og síðan hafa ríki og sveitarfélögin skapað hér aðstöðu sem býður upp á mikla möguleika eins og með stórbættum höfnum, samgöngum o.fl. Hér er því komin aðstaða til stórsóknar í ferðamálum, stóriðju, smáiðnaði og þjónustu. Hér er mikill kraftur sem er verið að virkja.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024