Heppnin með Halldóru
Vann stærsta vinninginn í Jólalukku VF, hægindastól frá Bústoð.
„Ég setti marga miða með nöfnum barna minna í kassann í Nettó en bara einn með mínu nafni þannig að þetta kom skemmtilega á óvart. Svo hef ég aldrei áður unnið í svona leik eða happdrætti en maður verður að vera með ef maður ætlar að reyna á lukkuna sem var með mér þarna,“ sagði Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir en hún vann stærsta vinninginn í Jólalukku VF 2023, Delta leðurhægindastól frá Bústoð að verðmæti um 180 þúsund krónur.
Halldóra var dregin út í öðrum útdrætti í Jólalukkunni en hún var ein af rúmlega sextíu heppnum sem dregin voru út í Jólalukkunni. Halldóra segist vera dyggur viðskiptavinur Bústoðar. „Ég kem oft hérna, síðast í gær. Ég hef nýtt mér vel gjafavörurnar í búðinni og keypt þær í tækifærisgjafir þannig að starfsfólkið í Bústoð kannast vel við mig,“ sagði Halldóra Fríða sem hefur verið forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar síðustu tvö árin.
Björgvin Árnason, einn eigenda og verslunarstjóri Bústoðar, sagði að desember hafi gengið frábærlega og aukningin 40% frá síðasta ári. „Já, þetta var frábært, mikil aukning og sama má segja um söluna í kringum Ljósanótt sem er einn af hápunktum ársins. Þetta var fyrsta árið hjá okkur nýjum eigendum og við erum bara mjög ánægðir með gang mála og ætlum að halda áfram á sömu braut og bjóða upp á mikið úrval af húsgögnum, rúmum og gjafavörum,“ sagði Björgvin.