Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Hélt að húsið væri að springa“
Laugardagur 23. ágúst 2003 kl. 12:53

„Hélt að húsið væri að springa“

- segir Júlíus Fossberg staðarhaldari í Krísuvíkurskóla

Upptök jarðskjálftans sem reið yfir Suð-Vesturland um klukkan tvö í nótt eru við Krísuvíkurskóla, en jarðskjálftinn mældist 5 á richter. Júlíus Fossberg staðarhaldari í skólanum segir að honum hafi brugðið mjög þegar skjálftinn reið yfir. „Ég sofnaði um miðnætti, en vaknaði við skjálftann og þá hélt ég að húsið væri hreinlega að springa, lætin voru þvílík,“ segir Júlíus en hann býr í húsi sem er um 300 metra frá skólanum. Júlíus segir að skjálftinn hafi verið óratíma að ganga yfir. „Mér fannst eins og jörðin skylfi á meðan ég hentist í fötin og dreif mig niður í skóla. Ég er eini maðurinn sem er á bíl hér og það kom upp í hugann að fara með alla vistmennina af svæðinu, en það eru 17 manns í vist hér núna.“ Þegar Júlíus kom að skólanum voru flestir vistmenn komnir út á tröppur. „Það var skelfingarsvipur á fólkinu þegar ég kom niður eftir, enda voru allir dauðskelkaðir. Á meðan við stóðum þarna úti fundum við eftirskjálftana vel, enda voru það ágætis kippir,“ segir Júlíus en ennþá eru eftirskjálftar og klukkan rúmlega 10 í morgun reið einn yfir sem var upp á 3 á ricther. Að sögn Júlíusar eru skemmdir á húsnæði óverulegar, en eitthvað var um að hlutir færu úr hillum. Júlíus segir að vistmenn séu orðnir rólegir, en fylgst verði vel með þróun mála. „Þetta var óskemmtileg upplifun, en við tökum þessu með æðruleysi,“ sagði Júlíus í samtali við Víkurfréttir.

VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024