„Hélt að atvinnuástandið yrði verra fyrir ungt fólk“ segir starfsþróunarstjóri Reykjanesbæjar
„Við fórum af stað með avinnuátak fyrir ungmenni á aldrinum 17-20 ára. Við sóttum um styrk til Vinnumálastofnunar en þeir ásamt Velferðarstofnun standa fyrir almennu vinnuátaki fyrir ungmenni. Þar sóttum við um 250 störf en hlutum aðeins 40,“ segir Guðrún Þorsteinsdóttir starfsþróunarstjóri hjá Reykjanesbæ aðspurð út í atvinnumál hjá ungu fólki í Reykjanesbæ.
„Skógræktarfélag Suðurnesja hafði 10 störf í boði og úr þessum 50 störfum tókst okkur að búa til 86 störf fyrir ungmenni og erum að bæta 21 starfi við. Það eru alls kyns störf í boði, sum sérætluð fyrir háskólanema, önnur tengd fjölskyldu og félagsþjónustu og einnig á fræðslusviði. Flest störfin eru þó á umhverfis- og skipulagssviði.“
Guðrún segir aðsókn í störf á vegum Reykjanesbæjar vera svipaða og undanfarin ár en þó hafi komið skemmtilega á óvart hve mikill fjöldi ungmenna hafi fengið vinnu á öðrum stöðum. „Það er þessi hópur krakka á aldrinum 17-18 ára sem eiga hvað erfiðast með að fá vinnu, þau eru útilokuð víða vegna aldurs.“
„Við höfum ekki getað veitt öllum vinnu sem hana vilja. Við náðum að útvega flestum af þeim sem fæddir eru 1994 vinnu og flestum af hinum sem sóttu um. En ég get ekki sagt að við séum að veita öllum vinnu sem hana vilja,“ segir Guðrún.
Fyrir árið 2008 þurfti að leita eftir fólki til að koma til vinnu sem flokkstjórar hjá Vinnuskólanum, það hreinlega bráðvantaði fólk. Nú hefur þetta algerlega snúist við en þó hefur okkur tekist að fá fólk í þessi störf.
„Þetta eru hörkuduglegir krakkar sem vilja vinna. Við höfum þó verið var við það að strákar virðast eiga erfiðara með að útvega sér vinnu. Kannski það sé vegna þess hve lítið af vinnu er í boði í byggingarbransanum þar sem strákar hafa kannski frekar fengið vinnu í gegnum tíðina.“
Ég hélt að ástandið yrði mun verra en raun ber vitni en það hefur ræst vel úr þessu,“ sagði Guðrún að lokum.