Fréttir

Helmingur sölustaða á Suðurnesjum selja ungmennum tóbak
Miðvikudagur 8. nóvember 2017 kl. 05:00

Helmingur sölustaða á Suðurnesjum selja ungmennum tóbak

Nærri þrefalt fleiri sölustaðir seldu ungmennum tóbak nú í ár en í fyrra en 48% sölustaða á Suðurnesjum seldu ungmennum, á aldrinum 15 til 16 ára, tóbak. Þetta fram kemur í könnun sem gerð var þann 1. nóvember síðastliðinn á vegum Samsuð, Samtaka félagsmiðstöðva á Suðurnesjum.
Könnunin fór þannig fram að ungmennin fóru inn á alla sölustaði tóbaks á Suðurnesjum og freistuðu þess að fá keypt tóbak. 11 sölustaðir, af 23 stöðum, seldu ungmennum tóbak.

Þróun á sölu tóbaks til ungmenna á Suðurnesjum síðustu ár hefur verið eftirfarandi:
Árið 2000: 65% sölustaða seldu ungmennum tóbak
Árið 2003: 55% sölustaða seldu ungmennum tóbak
Árið 2009: 21% sölustaða seldu ungmennum tóbak
Árið 2010: 39% sölustaða seldu ungmennum tóbak
Árið 2012: 44% sölustaða seldu ungmennum tóbak
Árið 2014: 32% sölustaða seldu ungmennum tóbak
Árið 2016: 17 % sölustaða seldu ungmennum tóbak
Árið 2017: 48 % sölustaða seldu ungmennum tóbak

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í 8. gr. laga um tóbaksvarnir frá árinu 2002 er kveðið á um að tóbak megi hvorki selja né afhenda einstaklingum yngri en 18 ára. Bann þetta skal auglýst með áberandi hætti þar sem tóbak er selt. Leiki vafi á um aldur kaupandans getur sala því aðeins farið fram að hann sýni með skilríkjum fram á að hann sé orðinn 18 ára.

Aðrar kannanir sem Samsuð framkvæmir reglulega eru kannanir um sölu á neftóbaki og áfengi í Vínbúðinni.