Helmingi fleiri ferðamenn til Íslands í mars
Fjöldi ferðamanna hefur nærri þrefaldast frá árinu 2002
Erlendum ferðamönnum á Íslandi í nýliðnum marsmánuði fjölgaði um nær helming en em 49 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í mars samkvæmt talningum Ferðamálastofu. Það er um fimmtán þúsund fleiri en í sama mánuði árið 2012 sem gerir um 45,5% aukningu milli ára.
Fjölda ferðamanna í marsmánuði hefur þrefaldast á tólf ára tímabili (2002-2013) en 2002 komu sautján þúsund ferðamenn til landsins í mars á móti 49 þúsund núna.
Það sem af er ári hafa 122.137 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 34 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 39,3% aukningu milli ára. Verulega aukningu má sjá frá flestum mörkuðum; Bretum hefur fjölgað um 55,5%, N-Ameríkönum um 43,2%, Mið- og S-Evrópubúum um 39,5% og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum um 42,6%. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað minna eða um 9,5%.
Ferðamálastofa segir að þótt enn sé allt of snemmt að spá fyrir um árið í heild þá má benda á að með sama áframhaldi, þ.e. 40 % aukning utan háannar og ca. 13% aukning yfir sumarmánuðina þrjá, líkt og í fyrra, verða ferðamenn um Leifsstöð 818.000 talsins í ár.