Helguvíkurbruninn stærsta verkefni í sögu slökkviliðsins
Helguvíkurbruninn er stærsta verkefni í 109 ára sögu slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja. Eldur kom upp í flokkunarstöð Íslenska gámafélagsins í Helguvík skömmu fyrir hádegi á laugardag og slökkvistarf hafði staðið á þriðja sólarhring þegar Víkurfréttir náðu tali af Jóni Guðlaugssyni, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja á mánudag. Þá var ennþá verið að dæla vatni á glæður í timburhaug á athafnasvæðinu við Berghólabraut 5.
Tilkynnt var um eldsvoðann til Neyðarlínunnar kl. 11:24 á laugardagsmorgun. Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri, var staddur á fundi í Grófinni og því skammt frá. Þegar hann kom á vettvang brunans örfáum mínútum eftir að útkallið barst var ljóst að húsnæði fyrirtækisins var alelda. Hann hafi þá þegar tekið ákvörðun um að kalla út allt aðal- og varalið slökkviliðsins sem telur þrjátíu manns.
Lögreglumenn á eftirlitsferð um Helguvík nokkrum mínútum áður höfðu ekki veitt neinu grunsamlegu eftirtekt, þannig að ljóst má vera að húsnæði flokkunarstöðvarinnar varð alelda á mjög skömmum tíma.
„Ég fékk upplýsingar um það að þarna inni var talsvert af efni og meðal annars plasteinangrun og það skýrir hvers vegna þetta fór svona hratt. Svo var olíutankur við húsgaflinn og þá blossaði þetta allt saman upp. Þetta einangrunarplast sem var þarna inni skýrir mjög hraðan bruna,“ segir Jón.
Gaskútar eins og skæðadrífa
Gaskútar voru geymdir í hirslum utan við flokkunarstöðina og þegar eldurinn í húsinu hafði magnast náði hann í kútana sem tóku að springa. „Þeir voru eins og skæðadrífa yfir okkur.“
Fljótlega barst eldur í mikinn timburhaug á athafnasvæðinu. Jón segir að hann hafi kannað aðstæður við hauginn fljótlega eftir að hann kom á vettvang og þá var ekki mikill hiti við hauginn. Vindur stóð hins vegar af húsinu og yfir timburhauginn og mögulega hafi eldurinn borist þangað þegar olíutankurinn og gaskútarnir urðu eldinum að bráð. Sprengingarnar voru það miklar á tímabili. „Lögreglan fer nú með rannsókn á vettvangi og á eftir að koma með sínar niðurstöður,“ segir Jón.
Auk þrjátíu slökkviliðsmanna þá voru þrjár gröfur og hjólaskófla notaðar við slökkvistarfið á annan sólarhring við að moka úr timburhaugnum. Einnig komu tveir slökkviliðsmenn og tankbíll frá Slökkviliði Grindavíkur og voru vaktaskipti á honum.
Takmarkað aðgengi að vatni í Helguvík
Aðgengi að vatni var ekki gott á svæðinu.
„Vatnið á svæðinu annar kannski einum slökkvibíl sem eru um þrjú til fjögur þúsund lítrar en við vorum með dælugetu upp á sextán þúsund lítra. Við hefðum alveg getað þegið það að geta fullnýtt að minnsta kosti tvo bíla, en það var ekkert í boði.“
Aðspurður sagði Jón það algjörlega óraunhæft að leggja lögn niður í sjó og að brunavettvangi. Vegalengdin er mikil og jafnframt hæðarmunur þannig að það hefði þurft tvær til þrjár millidælingar á leiðinni. Þá væri ekki til nógu mikið af sverum slöngum í svoleiðis aðgerð.
„Við vorum með yfirdrifið nóg af tækjum á vettvangi, það vantaði bara vatn. Við hefðum ekki komið fleiri tækjum að þarna. Við vorum með fjóra dælubíla á svæðinu, lausar dælur, körfubíl og tækjabíl. Það var ekki pláss fyrir meira.“
Fjórtán önnur útköll á laugardaginn
Þó mönnum finnist nóg um að fá risastórt brunaútkall, þá var það ekki það eina sem gekk á þennan laugardag hjá Brunavörnum Suðurnesja, því á dagvaktinni á laugardag bárust fjórtán önnur útköll. Það útheimtir mikinn mannskap.
Jón blæs á vangaveltur sem sköpuðust í umræðuþráðum á samfélagsmiðlum þar sem eldsvoðinn var til umræðu. „Við vorum með nóg af tækjum og vangaveltur um að dæla sjó úr Helguvíkurhöfn eru óraunhæfar.“
Slökkvistarfið gekk slysalaust fyrir sig en vinna á vettvangi var erfið. Þegar eldur logar í timburhaug eins og þarna þá þarf í raun að færa til hverja einustu spýtu til að slökkva í henni eldinn. Jón segir mörg þúsund rúmmetra af timbri hafa verið í haugnum og það sé mikil handavinna að vinna úr því. Þrjár öflugar gröfur og hjólaskóflan hafi verið á annan sólarhring að færa til efnið úr haugnum. Á vettvangi voru einnig hjólbarðar og úrgangsolía og því hafi verið komið í gáma og í burtu af svæðinu.
Eldurinn komst ekki í hjólbarðana eða úrgangsolíuna. Um tíma lagði mikinn svartan reyk frá brunastað en hann myndaðist þegar einangrunarplastið og olíutankurinn brunnu.
Hrósar mannskapnum
Jón slökkviliðsstjóri hrósar sínum mannskap og þeim verktökum sem komu að gröfuvinnunni á vettvangi. Margir hafi staðið langa vakt og verið sólarhring eða meira að störfum á vettvangi brunans á meðan aðrir hafi sinnt öðrum verkefnum Brunavarna Suðurnesja en liðlega þrjátíu manns komu að störfum slökkviliðs. Þá var einnig fjölmennt lið lögreglu á vettvangi en stóru svæði var lokað til að skapa traustar aðstæður til slökkvistarfs.
Eins og fyrr segir þá fer þetta brunaútkall í sögubækur Brunavarna Suðurnesja sem lengsta einstaka brunaútkall sem slökkviliðið hefur tekist á hendur. Útkallið er einnig stórt í umfangi og þá varð altjón hjá Íslenska gámafélaginu í Helguvík en forstjóri fyrirtækisins metur tjónið á hundruð milljóna. Ráðist verður í uppbyggingu að nýju en hún getur tekið um hálft ár.