Helguvíkurálver á grænni grein
Oddný Guðbjörg Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði, er á leiðinni inn á Alþingi eftir sögulegar kosningar um liðna helgi. Samfylkingin bætti við sig þingmanni í kjördæminu og á nú þrjá fulltrúa á þingi, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, sem tapaði einum manni. Framsókn fékk tvo fulltrúa inn á þing og Borgarahreyfingin einn. Sandgerðingurinn Grétar Mar Jónsson féll hins vegar af þingi en hann hafði setið þar fyrir Frjálslyndaflokkinn. Oddný er eini þingmaður þjóðarinnar sem er búsettur á Suðurnesjum en Ragnheiður Elín, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, er að leita að húsnæði hér Suðurmeð sjó. Oddný hefur ekki gert upp við sig hvort hún ráði sér aðstoðarmann, eins og þingmönnum utan Reykjavíkur er heimilt.
Oddný segir að viðbrögð hennar við úrslitum kosninganna séu fyrst og fremst þakklæti fyrir stuðning Suðurnesjamanna og Sunnlendinga við Samfylkinguna. Einnig þakklæti til þeirra sem komu á kosningaskrifstofuna á hverjum degi og unnu að þessum góða árangri með mikilli vinnu, góðu skipulagi og léttri lund. Það er ekki síst þessu baráttuglaða og hæfa fólki að þakka að ágæt niðurstaða náðist í kosningunum, segir Oddný í samtali við Víkurfréttir.
Spurð um árangur Samfylkingarinnar í kjördæminu sagði hún það ánægjulegt að hafa bætt við þingmanni. „Við fundum fyrir miklum stuðningi hér á Suðurnesjum og miðað við hann gerði ég mér vonir um að ná inn fjórða manninum. Þúsundir manna og nú er ég ekki að ýkja því gestir voru rúmlega tvöþúsund sem komu á kosningaskrifstofuna okkar í Bolafæti á kosningadaginn. Ein mæt kona sem unnið hefur lengi með Samfylkingunni var gráti nær af gleði yfir fjölda gesta og stemningunni á kjördag“.
Aðspurð um hvað kjósendur hafi viljað segja við frambjóðendur í vinnustaðaheimsóknum, sagði Oddný að viðbrögð á vinnustöðum voru yfirleitt þau að fólk vildi gefa sér tíma til að tala um stöðuna og mögulegar lausnir. „Það var auðvitað staða heimila og atvinnulífs sem brann á fólki og svo ESB, kostir og gallar við aðild að Evrópusambandinu“.
Hvaða viðbrögð hefur þú verið að fá í Garðinum með þá ákvörðun að sækjast eftir þingsæti?
„Garðbúar eru flestir stoltir af því að þeirra kona hafi átt þetta tækifæri og gleðjast með mér. Einhverjir voru ekki mjög glaðir í fyrstu, kannski skiljanlega því þessu fylgja breytingar. Starfsmenn og bæjarfulltrúar þurfa að vinna með nýjum bæjarstjóra og vita ekki hvað tekur við. Ég mun verða áfram bæjarfulltrúi út kjörtímabilið“.
Hver verða næstu skref í Garðinum. Verður staðan auglýst eða liggur fyrir hver tekur við af þér?
„Við munum sennilega auglýsa eftir bæjarstjóra og óska eftir því að hann taki til starfa sem fyrst“. Oddný geri ráð fyrir að auglýsingin birtist í Fréttablaðinu á föstudaginn og í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Um framhald meirihlutasamstarfsins í Garði, sem er þverpólitískt, sagði Oddný: „Ég vona að N-listinn bjóði fram aftur. Við höfum náð mjög fínum árangri og full ástæða til að halda áfram því góða starfi. Við lögðum upp með að auka tekjur bæjarins, auka íbúalýðræði og gagnsæi stjórnsýslunnar og leggja áherslu á málefni sem gerðu Garðinn að fjölskylduvænum skóla- og íþróttabæ. Við höfum náð árangri á öllum þessum sviðum og einnig gert átak í umhverfismálum. Undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar fer af stað með haustinu og þá skýrast málin væntanlega“.
Hvaða málefni setur þú á oddinn inni á Alþingi?
„Í raun er bara eitt stórt mál sem allir þurfa að leggja sig fram við og það er að koma okkur upp úr efnahagslægðinni. Í því felst að skapa rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki og leysa vanda heimilanna um leið. Vinnan og velferðin eru samofin. Það þarf að lækka vexti, koma bankakerfinu í gang og afnema gjaldeyrishöft. Það verður að skapa hér stöðugleika og liður í því er að sækja um aðild að ESB og upptaka evru í framhaldi af samningum sem eru þjóðinni hagstæðir“.
Það er ljóst að staða atvinnumála á Suðurnesjum er hræðileg og um 1800 manns án atvinnu? Ætlar þú að beita þér sérstaklega í þessum málaflokki?
„Já það mun ég gera. Eins og ég sagði hér áður er nauðsynlegt að skapa fyrirtækjum umhverfi til að geta starfað. Ég mun einnig leggja áherslu á samstarf ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja til að skapa fjölbreytt atvinnutækifæri hvort sem er við alþjóðaflugvöllinn, í Helguvík eða á öðrum atvinnusvæðum sveitarfélaganna. Virkja þarf mannauðinn og hugmyndaauðgi okkar Suðurnesjamanna í enn ríkari mæli“.
Málefni Helguvíkur og orkuöflun vegna Helguvíkur hefur verið mikið í umræðunni. Ætlar þú að hafa áhrif í þessum málum í stjórnkerfinu?
„Ég lít svo á að málefni er snúa að álversframkvæmdum í Helguvík séu á grænni grein hvað varðar aðkomu ríkis og sveitarfélaga. Eins og Suðurnesjamenn vita hef ég unnið að því verkefni sem bæjarstjóri í Garði. Þar hefur samstarf sveitarfélaga, ríkis og Norðuráls gengið vel“.
Áttu þér sérstakar óskir um nefndir eða sérstaka málaflokka innan þingsins?
„Samstarf ríkis og sveitarfélaga er mér hugleikið og atvinnumálin auðvitað. Ég er talnaglögg svo sá eiginleiki gæti örugglega nýst vel við fjárlagagerð. Menntamál eru svo mín sérgrein þar sem ég er með meistarapróf í uppeldis- og menntunarfræðum og hef starfað í mörg ár að stefnumótun og stjórnun í menntakerfinu“.