Helgi á heimleið
Helgi Einar Harðarson, hjartaþegi úr Grindavík, er á heimleið eftir stóraðgerð í Svíþjóð þar sem skipt var um hjarta og nýra í honum. Hann kemur til landsins á miðvikudag, en aðgerðin var framkvæmd 14. júní.
Bati Helga hefur verið með ólíkindum góður þar sem hann hefur komið hreinn út úr öllum sýnatökum sem ákvarða hvort um höfnun sé að ræða.
„Það er afar sterkt að fyrstu sex sýnatökurnar séu hreinar. Um 90% allra hjartaþega fær höfnun á fyrsta árinu, en hún er metin frá skalanum 0 til 5. Ef mælist 1 eða minna er ekkert gert en svo eru gefin lyf við meiri höfnun.“
Læknar hér heima munu fylgjast með líðan Helga eftir heimkomuna og gera prufur í sambandi við höfnun.
Helgi bætti við að læknarnir hans væru hæstánægðir með árangurinn. „Nýrnalæknirinn sagði fyrir nokkrum vikum að hann hefði ekkert við mig að tala því að allt væri í góðu standi.“
Helgi segist mun hressari en áður en hann fór í aðgerðina. „Ég get gengið að vild alveg þangað til fæturnir segja stopp. Vöðvarnir eru ekki enn nógu sterkir en ég er mun betri en áður. “
Helgi segir dvölina úti í Svíþjóð hafa verið góða. „Þetta er búið að vera ljómandi. Ég var á spítalanum í 3-4 vikur eftir aðgerðina og hef síðan búið í íbúð sem við erum með á leigu. Ég er úti að rölta allan daginn og kem svo heim á kvöldin þannig að mér leiðist ekkert.“
VF-mynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson