Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Helga Sigurjónsdóttir með fyrirlestur í Víkinni
Laugardagur 1. febrúar 2003 kl. 09:53

Helga Sigurjónsdóttir með fyrirlestur í Víkinni

Helga Sigurjónsdóttir, kennari og stofnandi Lestraskóla Helgu, verður með fyrirlestur í Reykjanesbæ nk. mánudag þar sem hún mun m.a. ræða það hvernig aðferðum er hægt að beyta til að kenna börnum og fullorðnum með lestrarörðuleika, t.d. lesblindu að læra að lesa. Helga hefur sjálf þróað með sér aðferðir við lestrarkennslu og hafa þær gefist mjög vel og er uppbókað á námskeið hennar langt fram í tímann.Þær Jóhanna Maríusdóttir og Erna Alfreðsdóttir hafa sótt námskeiðið, Hvernig á að kenna lestur?, hjá Helgu en námskeiðið gengur út á það að læra að kenna börnum að lesa og þeim er eiga við einhver vandamál að stríða í sambandi við lesturinn. „Við fórum á þetta námskeið því við vildum finna okkur eitthvað til að hafa fyrir stafni og láta gott af okkur leiða, þar sem við vorum tímabundið út af vinnumarkaðnum. Við höfðum fylgst með Helgu og greinum hennar í nokkurn tíma og þannig vaknaði áhuginn“, sögðu þær í samtali við Víkurfréttir. Jóhanna og Erna segja að töluvert sé um lestrarörðuleika á Suðurnesjum og samkvæmt könnun sem gerð var fyrir nokkrum árum kom í ljós að hún er meiri hér en í öðrum landshlutum. Lestrarörðugleikar, s.s. lesblinda eru þó nokkuð dulið vandamál og því er erfitt að nálgast það. Þær segja mikilvægt að komast að rót vandans sem fyrst svo auðveldara sé að takast á við hann. Báðar hafa þær hafið lestrarkennslu heima hjá sér og kenna þær krökkunum eftir formúlunni sem kennd er í Lestrarskóla Helgu og notast þær við efni sem Helga hefur þróað. „Það er auðveldara að fá krakkana til að koma í lestrarkennslu heim til okkar og þannig nálgumst við krakkana mun betur. Það er líka yndislegt að sjá árangur erfiðisins að lestrarkennslunni lokinni og sjá breytinguna hjá krökkunum“, segir Jóhanna. Kennt er fjórum sinnum í viku, hálftíma í senn og tekur námskeiðið 8 vikur. Sá tími dugar vanalega krökkunum til að ná góðu valdi á lestrinum en það er þó mjög persónubundið.

Eins og áður sagði mun Helga Sigurjónsdóttir koma til Reykjanesbæjar á mánudaginn 3. febrúar og kynna aðferðir sínar við lestrarkennslu og fleira tengt því fyrir þeim sem hafa áhuga. Fyrirlesturinn verður í Víkinni að Hafnargötu 80 og hefst hann kl. 20:00. Jóhanna og Erna vonast eftir því að sem flestir mæti á fundinn en þar verður boðið upp á kaffi frá Kaffitár og mun gestum gefast kostur á að spjalla saman að fyrirlestri loknum.
Að lokum má benda þeim sem hafa áhuga að kynna sér þessi mál betur að hafa samband við þær Ernu í síma: 864-1873 eða Jóhönnu í síma: 898-7645.

Mynd: Jóhanna og Erna hvetja Suðurnesjamenn til að fjölmenna á fyrirlesturinn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024