Helga Margrét og Heiðarskóli fá Fjöregg FFGÍR
Heiðarskóli og Helga Margrét Guðmundsdóttir hlutu í ár Fjöregg FFGÍR sem eru samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjanesbæ.
Viðurkenningin er veitt árlega og var afhent á aðalfundi og uppskeruhátíð félagsins í Duushúsum þann 24. maí sl.
Fjöreggið er veitt þeim sem stuðlað hafa að eflingu samstarfs heimilis og skóla, forvörnum fyrir börn og unglinga og og stuðningi við foreldra eða foreldrastarf almennt. Við tilnefningar er litið til einstaklings, vinnustaðar, samtaka og fl. sem vinna gott starf í þágu barna og fjölskyldna í Reykjanesbæ
Heiðarskóli
Heiðarskóli hlýtur Fjöregg FFGÍR 2007 fyrir ýmsa nýbreytni í samstarfi heimilis og skóla og glæsilegt málþing um skólamál í Reykjanesbæ.
Heiðarskóli hefur bryddað upp á ýmsri nýbreytni í samstarfi heimilis og skóla. Skólinn hlustar á rödd foreldra og hefur verið duglegur að taka upp ýmsar nýjungar varðandi samstarf heimilis og skóla. Skólinn hélt ráðstefnu um skólamál í vetur, bauð ömmum og öfum í skólann og skipulagði heimsóknir foreldra á skólatíma.
Skólinn er alltaf opinn fyrir heimsóknir foreldra og hann heldur árlegan samskiptadag þar sem farið er yfir markmiðasetningu nemenda, foreldra og skólans. Einnig er heimasíða skólans lifandi og veitir stöðugar fréttir um skólastarfið.
Sóley Halla Þórhallsdóttir veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd Heiðarskóla.
Helga Margrét Guðmundsdóttir
Helga Margrét hlýtur Fjöregg FFGÍR 2007 fyrir frumkvöðlastarf og stuðning við FFGÍR.
Helga Margrét var fyrsti verkefnastjóri FFGÍR á sínum tíma og vann mikið þrekvirki m.a. með innleiðingu á handbókum foreldrafélaga og foreldraráða en það verkefni hlaut sérstaka viðurkenningu Heimilis og skóla. Helga Margrét starfar nú sem verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og hefur verið ötul talsmaður þess að koma á fleiri samtökum foreldra í öðrum bæjarfélögum líkt og FFGÍR og eins að koma þeim saman í fulltrúaráði fyrir allt landið. Þrátt fyrir að Helga Margrét búi ekki lengur í Reykjanesbæ hefur hún fylgst vel með því sem FFGÍR er að gera og veitt okkur hvatningu og góð ráð.
Einnig voru þau Ásdís Ýr Jakobsdóttir og Víðir Jónsson kvödd með virktum og þakkað fyrir gott foreldrastarf á liðnum árum.
Mynd: Helga Margrét og Sóley Halla taka við verðlaununum