Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Héldu sér í björgunarhringi: bjargað á elleftu stundu
Þriðjudagur 16. desember 2003 kl. 03:09

Héldu sér í björgunarhringi: bjargað á elleftu stundu

Mannbjörg varð í nótt er tveimur skipverjum af gamla Lóðsinum frá Vestmannaeyjum var bjargað úr sjónum úti fyrir Hafnabergi á Reykjanesi.  Hjálparbeiðni var send út til nærstaddra skipa kl. 23:20 í kvöld en netaskipið Happasæll KE var næstur slysstað. Fyrstu upplýsingar bentu til þess að gamli Lóðsinn, sem er dráttarbátur, væri vélarvana þar sem hann var að draga pramma. Skömmu síðar sökk báturinn og tók prammann með sér. Tveir skipverjar voru á gamla Lóðsinum og höfðu þeir komið björgunarbáti fyrir við skipshlið en höfðu ekki blásið hann upp þegar gamli Lóðsinn sökk skyndilega að aftan. Báturinn sökk á um einni mínútu, að því er skipverjar á Happasæli KE sögðu í samtali við blaðamenn Víkurfrétta í Sandgerði í nótt. Skipbrotsmennirnir af gamla lóðsinum fóru báðir í sjóinn og héldu sér á floti við björgunarhringi þegar Happasæll kom á slysstað. Annar mannanna var í flotbúningi, en hinn í kafarabúningi. Annar þeirra var orðinn mjög kaldur að sögn skipverja á Happasæli KE og hefði ekki mátt vera í sjónum mikið lengur. „Hann skalf mjög mikið og við drifum hann beint í heita sturtu og létum hann fá þurr föt. Lappirnar á honum voru orðnar bláar og það er alveg ljóst að hann hefði ekki lifað af mikið lengur í sjónum,“ sagði Frímann Guðmundsson matsveinn á Happasæli KE í samtali við Víkurfréttir.
Hafþór Þórðarson skipstjóri á Happasæli KE sagði að þegar þeir komu að mönnunum í sjónum hafi þeir verið með vasaljós og búnir að binda björgunarhringina saman. „Við sáum þá strax og það er ekki spurning að vasaljósið bjargaði mönnunum. Það gekk vel að ná þeim um borð, en þeir voru búnir að vera í sjónum í um 20 mínútur,“ sagði Hafþór í samtali við Víkurfréttir.

Komið var með skipbrotsmennina til Sandgerðis á öðrum tímanum í nótt.

Skipverjar á gamla Lóðsinum voru með pramma í drætti úti af Hafnabergi þegar rafmagnið fór skyndilega af bátnum hjá þeim. Þá varð mönnunum ljóst að vélarrúmið var hálffullt af sjó. Á örskammri stund var dráttarbáturinn sokkinn og tók hann prammann með sér í djúpið. Þegar þetta er skrifað eru skipbrotsmenn í yfirheyrslum hjá lögreglunni í Keflavík. Þeir báðust undan viðtali þegar eftir því var leitað.

 

VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Efsta mynd: Lögreglumenn og skipbrotsmennirnir að týna til gallana sem mennirnir voru í og björgunarhringina í Sandgerði í nótt. Miðjumynd: Áhöfnin á Happasæli KE: Frímann Guðmundsson, Davíð Bragason, Halldór G. Halldórsson, Hafþór Þórðarson og Jóhannes Haraldsson. Neðsta mynd: Annar skipbrotsmannanna gengur ásamt lögreglumanni með björgunarhringina í lögreglubílinn í Sandgerði í nótt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024