Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Heklan og SAR á Norðurslóðir
Frá undirritun samstarfsyfirlýsingarinnar. F.v.: Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson frá Atvinnuþróunarfélagi Eyfirðinga, Berglind Kristinsdóttir frá Heklunni og Guðmundur Pétursson frá Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Miðvikudagur 18. september 2013 kl. 09:21

Heklan og SAR á Norðurslóðir

Heklan - atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi og Atvinnuþróunarfélag Eyfirðinga hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu þar sem þessir aðilar sammælast um að eiga samstarf um markaðssetningu Íslands gagnvart verkkaupum og framkvæmdaaðilum á Norðurslóðum. Tilgangur samvinnunnar er að auka flóru íslenskra fyrirtækja sem erindi eiga með þjónustu sína, hugvit og verkkunnáttu á alþjóðavettvangi.

Frá því í október 2012 hefur Atvinnuþróunarfélag Eyfirðinga verið í forsvari fyrir Arctic Services (AS). AS er markaðsátak fyrirtækja á Eyjafjarðarsvæðinu sérstaklega miðað að framkvæmdaaðilum á Norðurslóðum. Sérstaklega er bent á þróaða innviði og hátt þjónustuframboð svæðisins. Þróun klasans hefur verið sú að mikið af fyrirtækjum á landsvísu hafa séð hagsmuni í þátttöku í verkefninu og hefur framtakið vakið töluverða athygli.

Atvinnuþróunarfélag Eyfirðinga og Heklan munu eiga forgöngu í því að byggja upp samstarf og þróa samvinnu á milli fyrirtækja og stofnana á Eyjafjarðarsvæðinu og Reykjanesi. Þessir aðilar munu einnig standa fyrir samstarfsfundum þar sem styrkleikar aðila munu verða dregnir fram og fundnir verða samstarfsfletir á báðum atvinnusvæðum. Í samstarfsyfirlýsingunni segir jafnframt að skýrð verði framtíðarsýn, markmið, skipulag og fastmótaður samstarfsvettvangur þeirra er að honum standa. Atvinnuþróunarfélag Eyfirðinga, Heklan - atvinnuþróunarfélag Suðurnesja og Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi munu leggja til starfsfólk eftir því sem tök eru á en gert er ráð fyrir því að fyrirtækin innan klasans standi straum að öðrum kostnaði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024