Heitt vatn fundið á Vatnsleysuströnd – dugar til að hita upp 500 heimili
Borframkvæmdir á vegum Jakobs Árnasonar, landeiganda á Auðnum á Vatnsleysuströnd, báru árangur í vikunni þegar borinn kom niður á heitt vatn. Borunin hófst í byrjun september og var borað niður á 800 metra dýpi. Fimmtíu gráðu heitt vatn streymir nú upp úr holunni og á eftir að hitna en reiknað er með að það fari í 80 gráður. Um 20 sekúndulítrar af heitu vatni fást í holunni en það magn dugar til að hita upp 400 – 500 heimili. Á 20 metra dýpi kom borinn niður á kalt vatn og myndi magnið duga til að fullnægja kaldavatnsþörf Grindavíkur.
Jarðborinn er í eigu Ræktunarsambands Flóamanna en Jakob stendur að þessum framkvæmdum á eigin kostnað. Vatnið hyggst hann nýta fyrir Vatnsleysuströndina en þar eru 40 heimili sem nota rafmagn til upphitunar. Hann segir Hitaveitu Suðurnesja ekki hafa viljað leggja í kostnað við að leggja hitaveitu inn á ströndina og því hafi hann ákveðið að ráðast í þetta sjálfur.
Innan landareignar Auðna eru 70 lóðir sem ekki er búið að skipuleggja en Jakob segist hafa beðið með að láta skipuleggja svæðið uns í ljós kæmi hvort HS legði hitaveitu inná Vatnsleysuströnd eður ei. Nú til dags vilji engjnn byggja á svæðum þar sem ekki sé hitaveita því húshitunarkostnaður sé helmingi hærri með rafmagni.
Fjárhagsleg áhætta af borframkvæmdum er alltaf talsverð því ekki er hægt að vita fyrirfram hver árangurinn verður. Ávinningurinn er hins vegar nokkur ef vel tekst til. Jakob virðist hafa unnið í því happadrætti en þegar hann er inntur eftir því hvernig honum hafi dottið í hug að bora eftir heitu vatni á svæði þar sem enginn yfirborðshiti er sjáanlegur, er svarið stutt og laggot „Ég var búinn að þefa þetta uppi“.
Efri mynd: Jakob Árnason var á svæðinu í morgun. Vel rýkur upp úr holunni eins og sjá má.
Neðri mynd: Jakob ásamt bormönnum í morgun. Menn voru ánægðir með árangurinn.
VFmyndir/elg