Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Heitavatnsleysi hefur ekki áhrif á flug til og frá Keflavíkurflugvelli
Laugardagur 10. febrúar 2024 kl. 17:33

Heitavatnsleysi hefur ekki áhrif á flug til og frá Keflavíkurflugvelli

Síðustu daga hefur öflugur hópur starfsfólks á Keflavíkurflugvelli unnið hörðum höndum að mótvægisaðgerðum til að halda starfsemi flugvallarins gangandi. Það hefur skilað þeim árangri að ekki er fyrirsjáanlegt að yfirstandandi heitavatnsleysi hafi áhrif á flug til og frá Keflavíkurflugvelli.

MÓTVÆGISAÐGERÐIR OG ÁHRIF Á STARFSEMI

Vegna heitavatnsleysis er kaldara í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli og öðru húsnæði á svæðinu. Mótvægisaðgerðir hafa miðað því að lágmarka áhrif þessa á gesti flugvallarins og starfsfólki í flugvallarsamfélaginu. Það hefur verið gert með því að setja upp hitablásara á völdum stöðum og með því að slökkva á loftræstingu til að koma í veg fyrir að köldu lofti sé blásið inn. Að auki er þess gætt að gluggar og dyr séu ekki opnaðar að óþörfu. Til að gæta öryggis hafa hálkuvarnir á gönguleiðum verið auknar þar sem slökkt hefur verið á snjóbræðslu við flugstöðina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þrátt fyrir að heitavatnsleysi hafi ekki áhrif á flug til og frá flugvellinum hefur það og mótvægisaðgerðir áhrif á þjónustu í flugstöðinni. Möguleikar veitingastaða á að framreiða heitan mat hafa minnkað á meðan slökkt er á loftræstikerfi. Til að vega upp á móti því hafa veitingastaðir tryggt nægt framboð á öðrum veitingum. Gott úrval af mat og drykkjum stendur því gestum flugvallarins áfram til boða.

Þá hefur einnig verið gripið til varúðarráðstafana sem miða að því tryggja starfsemi ef kalt vatn færi aftur af flugstöðinni. Búið er að útvega færanleg salerni sem hægt er að taka í notkun með litlum fyrirvara þannig að slík röskun hefði takmörkuð áhrif. Rétt er þó að halda því til haga að kaldavatnsleysið þann 9. febrúar kom ekki til vegna eldsumbrota heldur bilunar í lögn hjá HS Veitum.

Samhliða mótvægisaðgerðum hefur verið unnið að undirbúningi varaleiðar sem gerir flugvöllinn betur í stakk búinn til þess að takast á við skort á heitu vatni í framtíðinni. Það er gert með því að koma fyrir kyndistöð við flugstöðina.

DREGIÐ ÚR RAFORKUNOTKUN

Með mótvægisaðgerðunum hefur verið dregið úr raforkunotkun á flugvellinum. Þar vegur þyngst að slökkt var á loftræstikerfi flugstöðvarinnar. Raforkunotkun flugvallarins er því vel undir því sem hún er á venjulegum dögum sem hefur dregið úr álagi á raforkukerfið á svæðinu. Að auki er Keflavíkurflugvöllur með varaaflsstöðvar sem hægt er að taka í notkun þegar þörf er á.