Heitar umræður um fjölbýlishús í einbýlishúsabyggð í Garði
Nokkuð heitar umræður hafa farið fram á samfélagsmiðlum í Garði um tillögu að deiliskipulagi fyrir Gerðatún Efra. Þann 20. apríl 2022 var auglýst tillaga að deiliskipulagi á reit íbúðarsvæðis milli Melbrautar og Valbrautar í Garði. Í auglýsingunni er vakin athygli á því að þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta eru hvattir til að kynna sér tillöguna og koma á framfæri athugasemdum og ábendingum með skriflegum hætti á netfangið [email protected].
Á vef Suðurnesjabækjar segir:
„Nokkur umræða hefur farið fram um þetta mál m.a. á samfélagsmiðlum og þykir ástæða til að koma eftirfarandi á framfæri að gefnu tilefni.
Aðdragandi að því að umrædd tillaga að deiliskipulagi hefur verið auglýst er að á fundi framkvæmda-og skipulagsráðs þann 16. febrúar 2022 var fjallað um fyrirspurn frá Heiðarhúsi í samráði við landeigendur um heimild til deiliskipulags á þessum reit. Framkvæmda-og skipulagsráð samþykkti að veita heimild til vinnslu deiliskipulags af svæðinu. Á fundi framkvæmda-og skipulagsráðs þann 16. mars var fjallað um deiliskipulagstillöguna og samþykkt að auglýsa hana og kynna samkvæmt 41.gr. skipulagslaga. Var það síðan samþykkt í bæjarstjórn þann 6. apríl 2022.
Það er því byggingaraðili í samstarfi við landeigendur sem óskar eftir að deiliskipuleggja umrætt svæði og gerir það á sinn kostnað. Í gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir íbúðum á viðkomandi svæði en ekki hefur komið til framkvæmda. Samkvæmt skipulagslögum ber að auglýsa tillögu að deiliskipulagi og öllum gefinn kostur á að kynna sér tillöguna og gera athugasemdir eða ábendingar ef þurfa þykir.
Lögð er áhersla á það að allir sem hafa ábendingar eða athugasemdir um deiliskipulagstillöguna komi því á framfæri á netfangið [email protected]. Allar ábendingar og athugasemdir sem berast með formlegum hætti koma til umfjöllunar við frekari úrvinnslu málsins og tekin afstaða til þeirra.“