Heimsyfirráð á næsta ári
Ástarkveðja frá Keflavík, nýjasti geisladiskur Fálkanna, kom út í vikunni. Í tilefni útgáfunnar mun hljómsveitin halda tónleika í Frumleikhúsinu í Keflavík miðvikudaginn 21. júní og í Kaffileikhúsinu 22. júní. Húsið opnar kl. 20:30 og miðaverð er 500 krónur.Karl Geirsson, trommuleikari Fálkanna, sagði í viðtali við VF að diskurinn væri ofboðslega skemmtilegur og að allir ættu að fara út í búð og kaupa hann. „Ég myndi lýsa tónlistinni sem swingandi fönkrokk en diskrinn fæst í öllum betri plötubúðum á Íslandi og þetta er tvímælalaust sumardiskurinn í ár“, segir Kalli af stakri hógværð.Ætlið þið að dreifa honum víðar en á Íslandi?„Við stefnum nú ekki á að dreifa honum neitt frekar, það er svoddan vesen. Við látum okkur nægja að taka yfir Ísland í sumar en við tökum kannski yfir heiminn á næsta ári“, segir Kalli stórkarlalega.Geisladiskurinn var tekinn upp í Stúdeó 60b í bítlabænum Keflavík og Kiddi stjórnaði upptökum, með aðstoð hinna Fálkanna. Þess má geta að keflvíska hljómsveitin Terrence kemur fram ásamt Fálkunum á tónleikunum í Frumleikhúsinu í næstu viku, en enn er óvíst hvaða hljómsveit fær að koma fram með lötustu hljómsveit landsins, í Kaffileikhúsinu.